Spilling, gáleysi eða hvort tveggja

Kristrún Frostadóttir segir ljóst að spilling eða vítavert gáleysi, hugsanlega …
Kristrún Frostadóttir segir ljóst að spilling eða vítavert gáleysi, hugsanlega hvort tveggja, hafi átt sér stað við útboð Bankasýslu á hlutum í Íslandsbanka. Hún krefst þess að fjármálaráðherra axli ábyrgð og segi af sér.

Nauðsynlegt er að Alþingi skipi rannsóknarnefnd til þess að fara í saumana á útboði Bankasýslunnar á hlutabréfum í Íslandsbanka, meðal annars til þess að skera úr um hvort þar hafi spilling viðgengist. Jafnframt kunni að vera nauðsynlegt að rannsaka fyrra útboðið. Þetta er meðal þess sem Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingar, segir í viðtali við Dagmál Morgunblaðsins, sem birt er í dag, en hún og Haraldur Benediktsson komu þangað til þess að ræða útboðið og afdrif Bankasýslunnar, sem ríkisstjórnin kynnti í gær að yrði lögð niður. Dagmál eru streymi Morgunblaðsins á netinu og opin öllum áskrifendum.

Haraldur tekur undir að velta þurfi við hverjum steini til þess að komast að því hvað fór úrskeiðis, en telur réttara að sá starfi sé í höndum ríkisendurskoðanda og eftir atvikum Seðlabanka en á vegum Alþingis.

Kristrún segir ekki ljóst hvort þarna hafi spilling eða klúður átt sér stað, en annað hvort sé það; hugsanlega hvort tveggja. Óháð slíkri rannsókn telur hún ljóst að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þurfi að axla ábyrgð á málinu og segja af sér. Ábyrgð hans sé augljós og tvímælalaus lögum samkvæmt. Hún vildi þó ekki svara því hvort hún teldi tilefni til þess að stefna ráðherra fyrir landsdóm.

Kristrún segir að rannsókn Ríkisendurskoðanda á útboðinu sé ófullnægjandi þar sem hann skorti ýmsar rannsóknarheimildir, sem rannsóknarnefnd á vegum Alþingis hefði, m.a. þá að geta boðað fólk til skýrslutöku.

Haraldur, sem líkt og Kristrún situr í fjárlaganefnd þingsins, vísar því á bug og segir ríkisendurskoðanda hafa víðtækar rannsóknarheimildir og geta aflað sér fleiri ef þörf þykir. Þyki enn skorta á sé Alþingi í lófa lagið að verða honum úti um frekari heimildir. Hann varar eindregið við því að Alþingi skipi rannsóknarnefnd í óðagoti og með óljós markmið, dæmin sanni að slíkar rannsóknir séu bæði tafsamar og ómarkvissar.

Áskrifendur geta séð viðtalið í heild sinni hér. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »