„Þetta er varhugaverður maður“

Gabríel Douane Boama er eftirlýstur af lögreglu en fólk er …
Gabríel Douane Boama er eftirlýstur af lögreglu en fólk er beðið að hringja í 112 ef það verður vart við ferðir hans. Ljósmynd/Lögreglan

„Við viljum finna þennan mann sem fyrst en hann er ákærður meðal annars fyrir ofbeldisbrot en hvað vakir fyrir honum með því að strjúka veit ég ekki, en þetta er varhugaverður maður,“ segir Sveinn Ingiberg Magnússon yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.

Gabríel Douane Boama er tvítugur karlmaður sem strauk úr gæsluvarðhaldi í gærkvöldi og er nú eftirlýstur af lögreglu.

Slítur sig lausan frá lögreglu

Sveinn Ingiberg segir atburðarásina hefjast í portinu í Hafnarstræti fyrir aftan Héraðsdóm Reykjavíkur við Lækjartorg þar sem Gabríel var leiddur út úr dómsal. Hann var ekki í handjárnum á því augnabliki sem hann flúði, samkvæmt Sveini.

„Þetta gerist á því augnabliki þegar á að fara að flytja fangann til baka og þá nær hann að slíta sig lausan og hleypur og lögreglumenn á eftir honum. Hann hleypur [Hafnarstrætið] í átt að Ingólfstorgi og beygir inn hjá Landsbankanum á Austurstræti og er kominn á Ingólfstorg og týnist þar. Það var góðviðrisdagur og fullt af fólki. Svo var strax hafin leit og kallað til lögreglulið en hann finnst ekki,“ segir Sveinn.

„Í kjölfarið er öll lögreglan látin vita og hann er eftirlýstur.“

Héraðsdómur Reykjavíkur við Lækjartorg.
Héraðsdómur Reykjavíkur við Lækjartorg. mbl.is/Þór

Verði ákærður fyrir flóttann

„Þetta er refsiverð hegðun að strjúka úr gæsluvarðhaldi, fyrir utan það sem hann er ákærður fyrir,“ segir Sveinn.

„Maðurinn er í síbrotagæslu og er með fjölda mála. Flóttinn mun væntanlega bætast við.“

Óvíst verður hvort flóttinn verði tekinn til dómsmeðferðar fyrr en eftir að dómur verður kveðinn upp fyrir fyrri brot, og bætist sú refsing þá við.

Gæsluvarðhaldið til þess að stöðva fleiri brot

„Framkvæmdin er þannig að menn eru fluttir í dóminn fyrir dómara og er þá búið að losa menn úr handjárnum. Menn sitja ekki inni í dómsalnum í handjárnum nema það séu alveg „extreme“ aðstæður. Þegar menn eru í gæslu þá eru lögreglumenn sem fylgja þeim inn og eru þar meðan á þinghaldi stendur,“ segir Sveinn og segir að það hafi ekki verið búið að setja manninn aftur í handjárnin þegar hann slapp.

„Maðurinn er í síbrotagæslu. Eitt úrræði er að úrskurða í slíka gæslu þar til dómur fellur til að reyna að ná að stoppa áframhaldandi brot og það er það sem þetta gæsluvarðhald átti að tryggja.“

Hvað vakir fyrir manninum er óljóst

Spurður hvort almenningi stafi hætta af manninum segir Sveinn: „Við viljum finna þennan mann sem fyrst en hann er ákærður meðal annars fyrir ofbeldisbrot en hvað vakir fyrir honum með því að strjúka veit ég ekki, en þetta er varhugaverður maður.“

„Við skorum á manninn að gefa sig fram en allir sem sjá hann eru hvattir til þess að láta lögreglu vita í 112.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert