Vilhjálmur segir hópuppsögn hjá Eflingu mistök

Vilhjálmur Birgisson telur að hægt hefði verið að ráðast í …
Vilhjálmur Birgisson telur að hægt hefði verið að ráðast í skipulagsbreytingar án hópuppsagnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, segir það mistök hjá stjórn Eflingar að ráðast í hópuppsögn á skrifstofu félagsins. Hann segist ekki geta stutt hópuppsögnina frekar en aðrar hópuppsagnir sem eiga sér stað á íslenskum vinnumarkaði. Hann telur að hægt hefði verið að ná fram fyrirhuguðum skipulagsbreytingum á skrifstofu Eflingar án þess að ráðast í hópuppsagnir. Þetta kemur fram í pistli á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness.

Vilhjálmur segist þó bera traust til Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, hvað varðar baráttu fyrir kjörum þeirra sem höllustum fæti standa, en með því sé hann ekki að styðja hópuppsagnirnar.

„Þessi aðgerð að beita þessu vafasama tæki sem hópuppsögn er liggur alfarið á ábyrgð lýðræðiskjörinnar stjórnar Eflingar og það er hún ein sem ber ábyrgð á þessari ákvörðun. En formaður ítrekar að það er hans bjargfasta skoðun að hér hafi verið gerð mistök enda hefði verið hægt að ná fram þeim skipulagsbreytingum sem stjórn taldi nauðsynlegar án hópuppsagna,“ skrifar Vilhjálmur.

Hann bendir á að það sé skylda stéttarfélaga að standa vörð um réttindi sinna félagsmanna og tryggja að farið sé að lögum og reglum og kjarasamningsbundin réttindi séu virt.

„Þetta mál er allt hið ömurlegasta og vonast formaður til þess að allir starfsmenn sæki aftur um starf og eins margir og kostur er fái endurráðningu. En eins og staðan er í dag veit enginn hvort allir verði endurráðnir eða enginn og því erfitt að vera að fabúlera um hvað muni gerast þegar ekkert liggur fyrir í þeim efnum þessa stundina,“ skrifar Vilhjálmur jafnframt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert