Borgin býður pláss á leikskólum sem séu ekki til

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Reykjavíkurborg hefur nú byrjað að bjóða börnum pláss á leikskólum sem ekki eru til. Þetta kom fyrir móður í Reykjavík sem beðið hafði eftir plássi á leikskóla fyrir dóttur sína. Biðlistar inn á leikskóla hafa aldrei verið lengri og borgarstjóri lofar nú átaki í leikskólamálum fái hann að halda áfram sem borgarstjóri eftir 8 ár á valdastóli. 

„Reykjavíkurborg sendir greinilega börnum boð um leikskólapláss án þess að hafa neitt á fast í hendi, en það er líklega bara gert til þess að stjórnmálamennirnir geti sagst hafa boðið öllum uppá leikskólapláss,“ segir móðirin, Hildur Steinþórsdóttir, í samtali við mbl.is.

Boðið pláss á leik­skóla sem var hvorki til í al­vör­unni né á papp­ír

Hildur segir í athugasemd við Facebook-færslu þar sem umræður sköpuðust um leikskólamál borgarinnar, að dóttur hennar hafi verið boðið pláss á leikskóla sem væri tilbúningur. Henni hafi verið boðið pláss á leikskóla sem gæti ekki hýst leikskólabörn sökum þess að hann væri bókstaflega ekki til.

Leikskólinn mun svo rísa í vinnuskúrum sem eru færanlegir.
Leikskólinn mun svo rísa í vinnuskúrum sem eru færanlegir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Sem nýbakað foreldri þá hefur það, að glíma við leikskólasvið Reykjavíkurborgar, verið það sem hefur mest tekið á sálarlífið,“ segir Hildur og heldur áfram: „Dóttur minni var boðið pláss á leikskóla við Nauthólsveg í lok nóvember 2021 og átti að byrja þar í lok janúar. Ég fór og skoðaði hvort sá leikskóli væri til, sem hann var ekki. Svo sá ég að aðaluppdrættir voru ekki samþykktir fyrr en fjórtánda desember, um þremur vikum seinna, og þá átti eftir að byggja leikskólann. Dóttur minni var boðið pláss á leikskóla sem var hvorki til í alvörunni né á pappír.“

Brostin loforð borgarstjóra

Leikskólamál Reykjarvíkurborgar er mál sem yfirleitt ratar inn í umræðuna stuttu fyrir kosningar. Nú rifja margir stuðningsmenn minnihlutans í Reykjavík upp kosningaloforð Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra og oddvita Samfylkingarinnar, fyrir kosningarnar 2014 og 2018 þar sem leggja átti áherslu á leikskólamál og húsnæðismál.

Frá árinu 2014 hefur núverandi borgarstjóri lofað því að öll börn 12-18 mánaða skuli fá pláss á leikskólum borgarinnar. Byggja átti 3.000 íbúðir miðsvæðis á viðráðanlegu verði sem áttu að vera leigu eða sölu til að koma til móts við vaxandi vanda á húsnæðismarkaði á kjörtímabilinu 2014-2018 sem ekki hefur verið ráðist í.

Í desember sendi upplýsingafulltrúi Reykjarvíkurborgar frá sér minnisblað þar sem meðalaldur við inngöngu á leikskólum Reykjarvíkurborgar væri 29 mánuðir og hefði hækkað úr þeim 26 mánuðum sem það var áður en kjörtímabilið hófst. Eftir að Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, vakti athygli á þessu í Kastljósþætti sendi borgarstjórn frá sér annað minnisblað þar sem meðalaldur var reiknaður öðruvísi.

Borgin ekki svarað spurningum

Hildur Steinþórsdóttir segist hafa margspurt lögmann borgarinnar hvort að ekki þurfi neitt að standa á bakvið boð um leikskólapláss og í raun sé stutta svarið „nei“. Ekki þurfi að vera til leikskóli til þess að hægt sé að bjóða leikskólapláss.

Í tölvupóstsamskiptum hennar við borgina er henni kastað á milli sviða innan borgarinnar og fá svör fást við spurningum hennar. Hver sá sem svarar tölvupóstum hennar firrar sig ábyrgð og bendir hver á annan, ef svar fæst.

Leikskólinn sem dóttur hennar var boðið á er ekki ennþá tilbúinn þrátt fyrir að skólagangan hafi átt að hefjast í janúar. Nú rúmum fjórum mánuðum eftir að leikskólastarf átti að hefjast eru bygging leikskólanna ekki klár og biðlistar aldrei verið lengri.

Ekki náðist í Skúla Helgason, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar og formann skóla-, og frístundaráðs Reykjavíkurborgar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert