Disney svipt sjálfsstjórnunarstöðu í Flórída

Disney World í Orlando.
Disney World í Orlando. AFP

Þingmenn í Flórída-ríki í Bandaríkjunum hafa kosið með því að fyrirtækið Walt Disney verði svipt sjálfsstjórnunarstöðu sinni í kjölfar þess að fyrirtækið mótmælti nýjum lögum ríkisstjórans sem takmarka umræður um kynhneigð og kynferðisleg málefni meðal yngri nemenda skólastofum í ríkinu. 

Í sjálfsstjórnunarstöðu Disney felst að fyrirtækið getur lagt á gjöld, byggt vegi og farið með stjórn og uppbyggingu innviða á svæðinu umhverfis Disney-skemmtigarðinn í Orlando. 

Fram kemur í frétt BBC að ákvörðun löggjafanna sé talin vera til mótvægis við andstöðu Disney við lögum sem heita Lög um réttindi foreldra í menntun, en gagnrýnendur kalla „Don't Say Gay“ lögin og ríkisstjórinn Ron DeSantis skrifaði undir fyrr í vor. Samkvæmt lögunum mega grunnskólakennarar ekki ræða kynhneigð eða kynferðisleg málefni við nemendur í þriðja bekk og yngri og þurfa einnig að gæta þess að slíkar umræður við eldri nemendur hæfi aldri. 

Þegar sagst ætla að skrifa undir lögin

Fulltrúadeild Flórída samþykkti í dag, með stuðningi DeSantis, ný lög sem svipta Disney sjálfsstjórnunarstöðu sinni, en lögin höfðu þegar verið samþykkt af öldungadeild Flórída. 

Sjálfsstjórnunarsvæði Disney, Reedy Creek Improvement umdæmi, var komið á árið 1967 í kjölfar samkomulags milli ríkisins og Walt Disney. 

DeSantis hefur þegar sagst ætla að skrifa undir lögin og mun sjálfsstjórnunarsvæði Disney því að öllu óbreyttu heyra sögunni til frá og með 1. júní á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert