Um 30 manns í björgunarliðinu

Mikið mun mæða á lögreglu, slökkviliði o.fl. við Þingvallavatn.
Mikið mun mæða á lögreglu, slökkviliði o.fl. við Þingvallavatn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við kíktum á vélina í síðustu viku með neðansjávardróna. Hún er í fínu standi, ekkert hefur breyst og því er ekkert því til fyrirstöðu að flytja hana,“ segir Lárus Kazmi, stjórnandi köfunarhóps sérsveitar ríkislögreglustjóra.

Stefnt er að því að hífa flugvélina TF-ABB upp úr Þingvallavatni á morgun, föstudag. Flugvélin, sem fórst í byrjun febrúar með fjóra karlmenn um borð, liggur á 48 metra dýpi í Ölfusvatnsvík.

Í tilkynningu frá lögreglu í gær kom fram að undirbúningur vegna verkefnisins hefði staðið yfir frá því ís hvarf af vatninu. Uppsetning vinnubúða vegna aðgerðanna hefst í dag en setja þarf upp tjaldbúðir með aðstöðu fyrir björgunarmenn og öryggisbúnað vegna köfunar.

Vanda þarf til verka við varðveislu muna og passa gögn

Lárus segir í samtali við Morgunblaðið að aðgerðin verði flókin. Búist er við því að um 30 manns taki þátt í henni, þar af 12 kafarar. Um er að ræða samstarfsverkefni lögreglunnar á Suðurlandi, sérsveitar Ríkislögreglustjóra, slökkviliðs og fleiri aðila.

„Við sendum tvo kafara niður að flugvélinni sem liggur á 48 metrum og þeir festa stroffur í vélina. Því næst verður hún hífð upp á töluvert minna dýpi og tryggð fyrir flutning. Þá verður siglt með vélina nær landi, um 1,5 kílómetra, þar sem við vinnum meira í henni,“ segir Lárus.

„Þá byrjar hin eiginlega rannsóknarvinna. Vélin verður ljósmynduð í bak og fyrir, allt innihald hennar, mælaborð, stjórntæki og annar búnaður. Annað verður svo tekið til hliðar,“ segir Lárus enn fremur og bætir við að huga þurfi vandlega að varðveislu þeirra muna sem finnast um borð. Mikilvægt sé að raftæki eins og símar og myndavélar séu flutt í vatni til rannsóknar svo gögn og fleira spillist ekki. Þegar rannsókn á vélinni er lokið mun krani hífa flugvélina upp á pall og hún verður flutt í land.

Vel þjálfaðir kafarar

Lárus segir enn fremur að aðstæður til þess að sækja vélina séu betri nú en þegar hún fór í vatnið í febrúar. „Þetta verða vitaskuld erfiðar kafanir. Það er alltaf hætta að fara svona djúpt en við höfum gert allar ráðstafanir til að bregðast við slysum. Við erum líka með vel þjálfaða menn sem eru vanir því að fara djúpt og kafa mikið.“

Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert