100 árum fagnað með reiðtúr um miðbæinn

Reiðtúrinn vakti mikla athygli hjá gangandi vegfarendum enda sjaldséð sjón.
Reiðtúrinn vakti mikla athygli hjá gangandi vegfarendum enda sjaldséð sjón. Ljósmynd/Aðsend

Fákur, hestamannafélag í Víðidalnum í Reykjavík, á í dag hundrað ára afmæli en því var fagnað í gær með reiðtúr um miðbæ Reykjavíkur og veglegri veislu um kvöldið.

Margir hafa eflaust rekið upp stór augu upp úr hádegi í gær en þá átti fjöldinn allur af fólki á hestbaki leið um miðbæ Reykjavíkur en það var fyrsti liðurinn í hátíðarhöldum Fáks sem fagnaði í gær hundrað ára afmæli.

Þar voru öll hestamannafélög í nágrenni við Fák komin saman og í broddi fylkingarinnar voru Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Sigurbjörn Bárðarson hestaíþróttamaður, Guðni Halldórsson, formaður Landssambands hestamanna, og Hjörtur Bergstað, formaður Fáks.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend

Fetuðu í fótspor forfeðra

Hófst reiðtúrinn við BSÍ og þaðan upp á Skólavörðuholt og svo niður Skólavörðustíg. Reiðtúrinn endaði síðan við Reykjavíkurtjörn. Segir Hjörtur í samtali við mbl.is að ekki hafi einungis verið farið fetið um götur borgarinnar heldur hafi verið að hans mati um að ræða almennilegan reiðtúr um miðbæinn.  

Segir Hjörtur þetta vera fína leið til að feta í fótspor forfeðranna. 

„Fyrir hundrað árum síðan, þegar Fákur var að stíga sín fyrstu skref, var auðvitað bara riðið um bæinn, fyrsti bíllinn kemur ekki fyrr en um 1920. Þannig erum við að feta í fótspor feðra okkar með því að gera þetta svona.“ 

Ljósmynd/Aðsend

Fyrstu hundrað árin 

Segir Hjörtur hátíðarhöldin hafa gengið vel og að skemmtunin hafi staðið fram á rauða nótt á fögnuði á Gullhömrum. Að sögn Hjartar var Dagur borgarstjóri viðstaddur fögnuðinn. Þar hafi hann flutt erindi þar sem hann talaði vel um starfsemi Fáks og sagði að það væri hans vilji sem borgarstjóri að halda hesthúsahverfinu í Víðidalnum. 

Hjörtur sér ekki fram á það að hesthúsahverfið verði fært annað í bráð og vísar hann til að mynda til þeirra fjárfestinga sem hafa verið gerðar þar í þágu hestamennsku undanfarið.  

„Það er í sjálfu sér ekkert sem bendir til þess að við þurfum að fara, ef það kæmi til þess myndum við náttúrulega berjast með egg og oddi gegn því en ég held að það séu allir sammála því að við verðum þarna áfram,“ segir Hjörtur.

Bendir hann á að þetta séu aðeins fyrstu hundrað árin í sögu félagsins. Segir hann að félagið muni halda áfram að lifa um ókomna tíð.

Ljósmynd/Aðsend

Sigurbjörn Bárðarson heiðraður 

Sigurbjörn Bárðarson var heiðraður á fögnuðinum í gærkvöldi. Var hann þá gerður að heiðursfélaga Fáks og er þar með aðeins annar maðurinn, í hundrað ára sögu félagsins, til að öðlast þann heiður.

Sigurbjörn varð sjötugur á þessu ári og er víðfrægur í heimi hestamanna enda hefur hann unnið til flestra þeirra verðlauna sem hestamenn geta fengið.  

Fyrstur til að verða heiðursfélagi Fáks var Guðmundur Ólafsson, fyrrum formaður Fáks, en hann féll frá árið 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert