Allt um vorverkin í garðinum

Steinn Kárason garðyrkjufræðingur.
Steinn Kárason garðyrkjufræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

Það er ekki seinna vænna að fara að huga að vorverkunum í garðinum. Steinn Kárason garðyrkjufræðingur og M.Sc. í umhverfisfræðum hefur árum saman sinnt fræðslu fyrir almenning og eys hér úr sínum viskubrunni. Það eru helst trjá- og runnaklippingar í heimagörðum ásamt sáningu og forræktun krydd- og matjurta innandyra sem vert er að sinna á þessum árstíma.

Trjá- og runnaklippingar

Steinn segir að um þessar mundir sé aðaltrjá- og runnaklippingatímabilið. Almenningur klippi einna helst á vormánuðunum apríl og maí þótt fagmenn klippi að vísu frá hausti og fram á vor. Ekkert er því til fyrirstöðu að snyrta tré og runna yfir sumarið en síst ætti að klippa um og eftir lauffall.

„Það er langþægilegast að átta sig á vaxtarlagi trjánna áður en þau laufgast. Þá sést hvernig er best að bera sig að við klippingarnar. Það er í og með af hagkvæmnisástæðum sem maður klippir núna en líka vegna þess að gróðurinn er enn í vetrardvala.“

Þegar kemur að krónuklippingu lauftrjáa eru nokkur atriði sem hafa ætti í huga.
„Það fyrsta sem maður gerir er að fjarlægja allar dauðar greinar, brotnar greinar og greinar sem nuddast saman og særa hver aðra, við köllum það krosslægjur. Eins klippir maður þétta greinarhluta sem myndast til dæmis á birki og kallast nornavendir.“ Vilji menn hafa tréð einstofna má fjarlægja neðstu greinarnar.

Það gilda ekki sömu reglur um allar trjátegundir en Sveinn segir frá þeim viðmiðum sem gilda um helstu flokka í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Sáning krydd- og matjurta

Um og eftir miðjan apríl er einnig háannatími í sáningu grænmetis þótt einni og einni tegund þurfi að sá fyrr. Nokkrum tegundum blóma og grænmetis má sá beint á vaxtarstað.

„Flestar tegundir kálplantna þarf að forrækta innandyra, t.d. blómkál og hvítkál. Maður getur verið með uppeldi heima í björtum gluggum. Sumir eru auðvitað með lýsingu en eftir miðjan apríl er venjulega ekki þörf á því,“ segir Steinn.

Fyrir utan trjáklippingar og sáningu eru fleiri vorverk sem vert er að hafa í huga á næstu dögum og vikum.

„Þegar jarðvegurinn fer að hlýna er rétt að stinga upp kálgarðinn og bera áburð og eftir atvikum kalk á gras og tré. Sjálfsagt að nota lífrænan áburð eftir því sem tök eru á, þörungamjöl til dæmis, tað eða moltu. Svo eru til áburðartegundir eins og blákorn sem nota má á flestan gróður. Leiðbeiningar um notkun eru á flestum pokum sem fást í verslunum,“ segir Steinn.

„Ef fólk ætlar að færa tré eða fjölærar plöntur þá er um að gera að færa þær um leið og frost fer úr jörðu. Að vísu er líka hægt að gera það að hausti eftir lauffall.“

Nánari umfjöllun má finna í Sunnudagsblaðinu.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert