Efling heldur félagsfund á miðvikudag

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur boðað til félagsfundar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur boðað til félagsfundar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórn Eflingar hefur boðað til félagsfundar á miðvikudaginn klukkan sex í félagsheimili stéttarfélagsins á 4. hæð, í Guðrúnartúni 1.

Þar verður meðal annars hægt að leggja fram vantrausttillögu á formann eða hvetja hann til að hætta við hópuppsagnir á skrifstofum félagsins. 

Fundinn boðar Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar í tölvupósti til félagsmanna, þar sem hún greinir frá því að tilgangur hans sé að fjalla um skipulagsbreytingar á skrifstofum félagsins. Öllum starfsmönnum þess var sagt upp fyrir skemmstu. 

„Ég hvet ykkur öll að mæta til að kynna ykkur breytingarnar á rekstri skrifstofunnar okkar,“ segir í póstinum. Er félagsfundurinn haldinn að beiðni 493 félagsmanna Eflingar og skiluðu trúnaðarmenn undirskriftarlista þess efnis í síðustu viku.

Ráðningarferli farin af stað

Í byrjun póstsins til félagsmanna segir að síðasta vika hafi verið óvenjuleg; fátt starfsfólk skrifstofunnar hafi mætt til vinnu og því hafi verið áskorun að halda móttökunni opinni og sinna þjónustu. 

„Okkur tókst engu að síður að halda opnu, grunnþjónustu var sinnt og VIRK-þjónustan var með öllu óskert. Allt bendir til að hægt verði að sinna áfram þjónustu í komandi viku, þótt einhverjar tafi kunni að verða,“ segir þar. 

Þá kemur fram að skipulagsbreytingar á skrifstofum félagsins gangi samkvæmt áætlun og ráðningarferli séu farin af stað. Ég vil ítreka hvatningu til félagsmanna að kynna sér „Spurt og svarað” um skipulagsbreytingarnar sem eru á vefsíðu okkar.“

Agnieszka fagnar fundarboðinu

Agnieszka Ewa Ziólkowska, varaformaður Eflingar, fagnar því í yfirlýsingu á Facebook að félagsfundur hafi verið boðaður á miðvikudaginn en hún segir þó óásættanlegt að ekki hafi verið farið eftir kröfum nærri 500 félagsmanna að halda fundinn þann 22. apríl.

„Formaður taldi það ekki vera nægilegur tími til að auglýsa þann fund en hinsvegar finnst henni í lagi að auglýsa þennan fund með sama fyrirvara,“ skrifar hún. Agnieszka er á meðal þeirra sem fengu uppsagnarbréf í gegnum lúguna þegar Sólveig tók við. 

 Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is