Fann spennuna stigmagnast

Klara Egilson hefur átt í góðu samstarfi við Úkraínumanninn Boris …
Klara Egilson hefur átt í góðu samstarfi við Úkraínumanninn Boris Sevastyanov. mbl.is/Árni Sæberg

Klara Egilson hefur unnið hörðum höndum að því að gefa út tónsmíðar afa síns Ingólfs Sveinssonar, lögreglumanns og tónskálds. Hún hefur sinnt því starfi í kyrrðinni á Eyrarbakka, í Háskólanum á Bifröst og með samstarfi við tónlistarfólk víðs vegar um heiminn.

Klara stofnaði meðal annars til samstarfs við úkraínska píanóleikarann Boris Sevastyanov, sem er frá Karkív, á alþjóðlegum samskiptavef tónlistarfólks á netinu. Hún segir það dæmigert fyrir það landamæraleysi sem ríki í tónlistarheiminum í dag. Þau hafa gefið út níu lög Ingólfs á Spotify.

Orðalaus og falleg tíðni

Þau Klara og Boris ráku samstarf allt þar til tveimur dögum áður Rússar réðust inn í Úkraínu. „Í svona samstarfi myndast listræn nánd sem tengist ekki inn á daglegt líf fólks og aðstæður heldur inn á orðalausa og fallega tíðni,“ segir Klara. Þau hafi ekki rætt aðstæðurnar í heimalandinu enda byggi samband þeirra á faglegu tónlistarsamstarfi.

„En vissulega fann ég fyrir öllu því sem ósagt var. Ég fann spennuna stigmagnast, ekki í hans orðum en ég fann að það var eitthvað í aðsigi. Þetta var gífurlega sérstök atburðarás að skynja upptök styrjaldar héðan frá Eyrarbakka í gegnum þessa listrænu, orðalausu tíðni,“ segir Klara og minnist þess að hafa verið farin að skynja þessa auknu spennu í kringum áramót.

„Ég innti hann eftir því hvort fjölskyldan væri örugg og hann sagði þá að átökin færðust stöðugt nær. Hann sagði við mig að þau fjölskyldan hefðu fyrir löngu tekið þá ákvörðun að standa með sínu heimalandi og sinni þjóð og vera um kyrrt.“ Hann hafði hlotið þjálfun undanfarin átta ár í úkraínska frelsishernum og gegnir sínu hlutverki þar.

Ber virðingu fyrir styrk þjóðarinnar

„Mér hefur ekki þótt við hæfi að vera alltaf að hafa samband við þau en ég bið fyrir þeim. Maður hefur séð styrkinn og einlægnina í gegnum opinber ummæli hans á netinu. Ég ber mikla virðingu fyrir styrk úkraínsku þjóðarinnar, yfirvegun þeirra og stillingu. Úkraínumenn eru listræn þjóð og það er einstakur þjóðarbragur úkraínskri listtúlkun sem ég hrífst af. Ég er heilluð af þessum menningarheim, menningu þessarar sjálfstæðu þjóðar,“ segir hún.

Viðtalið við Klöru í heild má finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »