70,7% treysta Bjarna lítið

Færri segjast bera mikið traust til ráðherranna en áður. Jón …
Færri segjast bera mikið traust til ráðherranna en áður. Jón Gunnarsson er þó stöðugastur hvað það varðar. mbl.is/Árni Sæberg

Fæstir bera mikið traust til Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra, eða 17,8%, en flestir bera mikið traust til Ásmundar Einars Daðasonar mennta- og barnamálaráðherra, eða 52,1%, samkvæmt nýrri könnun Maskínu. 

Flestir sögðust þó bera lítið traust til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, eða 70,7% en fæstir sögðust bera lítið traust til Ásmundar Einars. 

Aðrir ráðherrar en Ásmundur sem mælast með mikið traust eru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, með 44,5%, og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra með 40,7%.

51,3% segjast bera lítið traust til Jóns Gunnarssonar og 52,3% til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar.

Lilja Alfreðsdóttir menningar og viðskiptaráðherra, Guðlaugur Þór Þórsson umhverfis- og orkumálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra mælast öll með svipað mikið traust. Um 30% segjast bera mikið traust til þeirra og rúm 30% lítið.

Jón sá eini sem stóð í stað

32,5% svarenda sögðust bera mikið traust til Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra en 38,9% lítið. 31,1% sögðust bera mikið traust til Svandísar Svavarsdóttur landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra en 32,5% lítið. 

Hlutfall þeirra sem segjast bera mikið traust til ráðherranna minnkar í öllum tilvikum, mest í tilviki Sigurðar Inga Jóhannessonar, nema hvað varðar Jón Gunnarsson sem stendur í stað, á milli mælinga. Síðast voru þær gerðar í nóvember.

Könnunin nú var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, hóp sem er dreginn af tilviljun úr Þjóðskrá. Hún var framkvæmd 20. til 25. apríl og svöruðu 929 henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert