Höfum ekki sinnt orkumálum sem skyldi

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra segir að við höfum ekki lagt þá áherslu á orkumálin sem við hefðum átt að gera. Í Dagmálaþætti dagsins ræðir ráðherra grænbók í orkumálum, eins og skýrsla starfshóps til að meta stöðu og áskoranir í orkumálum, hefur verið kölluð.

Í skýrslunni kemur berlega fram að þörf er á mikilli aukningu í orkuframleiðslu til að tryggja svokallað orkuöryggi þjóðarinnar.

Þegar ráðuneyti þau sem Guðlaugur Þór ber ábyrgð á kemur í ljós að við höfum ekki verið með augun á þessum málaflokki, eins og hann orðar það sjálfur. Þegar þessi ráðuneyti voru sameinuð kom í ljós að tveir starfsmenn önnuðust orkumál en á milli fjörutíu og fimmtíu manns voru við störf í umhverfisráðuneytinu.

Skýrslan var unnin á tveimur mánuðum og er hún skrifuð út frá markmiðum og áherslum stjórnvalda í loftslagsmálum. Markmiðið er skýrt. Stefnt er að jarðefnaeldsneytislausu Íslandi 2040, eða eftir átján ár.

Skýrslan varpar ljósi á þá staðreynd að fjölmörg uppbyggina- og atvinnutækifæri hafa glatast vegna þess að orka hefur ekki verið til staðar. Hætta er á raforkuskorti þegar horft er til þess að framundan eru svokölluð orkuskipti þar sem bílar, skip og flugvélar munu ganga fyrir rafmagni.

Ráðherra ræðir þessi mál og fleiri tengd grænbókinni í orkumálum í þætti dagsins, sem er aðgengilegur öllum áskrifendum Morgunblaðsins. 

mbl.is