Sýna fjármálaráðherra fullan stuðning

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sala ríkisins á hlutabréfum þess í Íslandsbanka er í skýrt skilgreindu ferli og bæði til rannsóknar hjá Ríkisendurskoðun og Seðlabankanum.

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við blaðamenn að loknum ríkisstjórnarfundi fyrir utan Ráðherrabústaðinn í dag, innt eftir því hvort hún sjái einhverja leið út úr málinu.

Útboðið hafi ekki staðið undir væntingum 

„Ég hef sagt það mjög skýrt, bæði í fjölmiðlum og á þinginu, að það sé eðlileg og vönduð stjórnsýsla að bíða eftir niðurstöðum þeirra til að við getum metið hvort við teljum að eitthvað hafi í raun farið úrskeiðis í þessu útboði.“

Þá sagðist hún enn vera á þeirri skoðun að útboðið hafi ekki staðið undir væntingum hennar hvað varðaði gagnsæi. Það hafi legið fyrir að aðferðin sem notuð var við útboðið hafi ekki verið eins gagnsæ og sú sem notuð var í upphaflega útboðinu.

„Eigi að síður voru gerðar athugasemdir við þetta í málsmeðferðinni þannig ég get ítrekað það að ég varð fyrir verulegum vonbrigðum til að mynda þegar Bankasýslan hafnaði því að birta listann og ég get nefnt fleiri dæmi.“

Traust ríki enn milli ráðherra í ríkisstjórn

Spurð hvað henni fyndist um niðurstöðu kannana sem bendi til þess að traust til ríkisstjórnarinnar hafi farið hratt minnkandi sagði hún mikilvægt að taka mark á þeim gagnrýnisröddum sem heyrist.

„Meðal annars vegna þess eru þessi mál til rannsóknar, af því að við teljum mjög mikilvægt að hér sé allt uppi á borðum.“

Þrátt fyrir vantraust almennings til ríkisstjórnarinnar sagði hún traust enn ríkja milli ráðherra í ríkisstjórninni eftir bankasöluna. Þá sagðist hún telja fulla samstöðu vera innan ríkisstjórnarinnar um stuðning við Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra í málinu, innt eftir því.

Ert þú að íhuga að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu vegna málsins?

„Í mínum störfum, hér eftir sem hingað til, vil ég leggja mat á staðreyndir máls þegar þær liggja fyrir. Þess vegna er málið í því ferli sem það er, því við viljum hafa allt uppi á borðum og ég held við getum öll verið sammála um það.“

Bjarni veitti ekki viðtöl vegna hávaða

Fámennur hópur mótmælanda hafði komið saman fyrir utan Ráðherrabústaðinn til að mótmæla bankasölunni er ráðherrar gengu út að loknum ríkisstjórnarfundi. Hrópuðu þeir m.a. „Bjarna burt!“.

Bjarni gaf blaðamönnum ekki kost á viðtali eftir fundinn og sagði það vera vegna hávaðans frá mótmælendum.

Spurður hvort hann hyggðist fara burt eins og fólkið krafðist svaraði Bjarni neitandi.

„Ég er ekki að fara neitt,“ sagði hann áður en hann steig inn í bíl sinn og ók burt með hraði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka