Upptökur úr öryggismyndavélum gefa upplýsingar

Vélin var mjög heilleg að sjá þegar hún varð hífð …
Vélin var mjög heilleg að sjá þegar hún varð hífð upp úr vatninu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Upptökur úr öryggismyndavélum sumarbústaða við Þingvallavatn nýtast rannsóknarnefnd samgönguslysa við rannsókn á flugslysinu sem varð við vatnið í febrúar síðastliðnum. Fjórir karlmenn voru um borð í vélinni og létust þeir allir.

Þetta segir Ragnar Guðmundsson hjá rannsóknarnefnd flugslysa í samtali við mbl.is. Gögn úr eftirlitsmyndavélum geti þó aldrei ein og sér varpað ljósi á það sem gerðist. „Það er ákveðið innlegg,“ segir Ragnar.

„Það er eitt innlegg í málið en varpar aldrei heildarljósi á það. Það gefur ákveðnar upplýsingar en svo þurfum við fleiri púsluspil.“

Ekki farnir að rífa mótor í sundur

Vélin var hífð upp úr vatninu á föstudagskvöld og hélst í heilu lagi meðan á aðgerðunum stóð. Í kjölfarið var hún flutt í skýli rannsóknarnefndar samgönguslysa. Sjáanlegt ástand vélarinnar virtist þá gott, fyrir utan neðri vélarhlífina sem var illa skemmd. Þá virtist hreyfillinn nokkuð heill.

Ragnar er ekki tilbúinn að tjá sig á þessar stundu hvort unnið sé með einhverjar ákveðnar kenningar um hvað gerðist. Hvort mögulega bilun hafi átt sér stað eða drepið hafi verið á vélinni.

„Við erum ekki farnir að rífa neinn mótor í sundur eða neitt slíkt, það er því alltof snemmt að segja.“

Þá bendir Ragnar á að vélin hafi farið í vatn og því sé margt sem geti haft áhrif.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert