Varaformaður efast um lögmæti fundarboðs

Agnieszka Ewa Ziółkowska er varaformaður Eflingar.
Agnieszka Ewa Ziółkowska er varaformaður Eflingar. Samsett mynd/mbl.is

Agnieszka Ewa Ziólowska, varaformaður Eflingar, segir hætt við því að fundarboð Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, á félagsfund sé ekki löglegt þar sem efni fundarins sé ekki tilgreint. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu hennar.

Vísar Agnieszka til 29. greinar laga Eflingar um félagsfundi.

Segir hún hætt við því að gera megi ágreining um lögmæti fundarins að honum loknum, verði ekki úr þessu bætt.

Minnst fjórir stjórnarmenn Eflingar hafi sent formanni tölvupósta og vakið athygli á þessu, en ekki fengið svör. Þar sem ekki hafi borist nýtt fundarboð með dagskrá skorar Agnieszka opinberlega á formann að senda út nýtt boð.

Boðað var til félagsfundar eftir að tæplega 500 félagsmenn skrifuðu undir kröfu þess eðlis, en tilefni fundarins eru hópuppsagnir á skrifstofu Eflingar fyrr í mánuðinum.

Sólveig sendi út fundarboð á sunnudag, en fundurinn fer fram í Valsheimilinu á Hlíðarenda miðvikudaginn 27. apríl, klukkan 18. Í fyrstu stóð til að fundurinn yrði haldinn í húsakynnum Eflingar í Guðrúnartúni en í gær barst tilkynningum um breytta staðsetningu. Fundarstaðurinn hefur því verið færður í stærra húsnæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert