Lífslíkur á Íslandi með þeim mestu í Evrópu

Ísland er í fjórða sæti í Evrópu þegar meðalævilengd er …
Ísland er í fjórða sæti í Evrópu þegar meðalævilengd er skoðuð og ungbarnadauði er minnstur hérlendis. mbl.is/Hari

Meðalævilengd karla á Íslandi var 80,9 ár og meðalævilengd kvenna 84,1 ár fyrir árið 2021. Ísland er í fjórða sæti í Evrópu þegar meðalævilengd er skoðuð og ungbarnadauði er minnstur hérlendis. Árið 2021 létust 2.333 einstaklingar sem búsettur voru á Íslandi þar af voru 1.177 karlar og 1.156 konur. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands. 

Meðalævilengd sýnir hve mörg ár einstaklingur á að meðaltali ólifuð við fæðingu ef miðað er við aldursbundna dánartíðni mannfjöldans. Frá árinu 1988 hafa íslenskir karlar bætt við sig rúmlega sex árum og konur rúmlega fjórum í meðalævilengd.

Á árunum 2011–2020 mældist meðalævilengd í Sviss sú lengsta eða 83,3 ár. Þar á eftir komu Spánn (83,1) og Ítalía (83,0). Liechtenstein og Ísland komu þar á eftir með ævilengd upp á 82,7 ár. Styst var meðalævilengd karla í Úkraínu (72,2), Hvíta-Rússlandi (73,3) og Georgíu (73,8).

Ungbarnadauði í Evrópu minnstur á Íslandi

Árið 2021 mældist ungbarnadauði á Íslandi sá hæsti frá því árið 1997, en ungbarnadauði var 3,3 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum. Þegar hins vegar er horft á tíu ára tímabili (2010–2019) var ungbarnadauði á Íslandi að meðaltali 1,7 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum, að því er Hagstofan greinir frá.

Hvergi í Evrópu var ungbarnadauði jafn fátíður og hér. Hann var að meðaltali 2,1 barn í Finnlandi og í Slóveníu, 2,4 í Svíþjóð og Noregi og 2,5 í Eistlandi. Tíðastur var ungbarnadauði í Aserbaídsjan, 11,0 af hverjum 1.000 lifandi fæddum yfir tímabilið 2010-2019 samkvæmt tölum hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat.

Ævilengd háskólamenntaðra aukist meira en grunn- og framhaldskólamenntaðra

Árið 2021 var ólifuð meðalævi 30 ára kvenna með grunnskólamenntun 52,7 ár á meðan þrítugir grunnskólamenntaðir karlar máttu búast við því að lifa 49,2 ár til viðbótar. Konur með framhaldsskólamenntun gátu vænst þess að lifa tæplega þremur árum lengur en stallsystur þeirra með grunnskólamenntun eða í 55,6 ár frá 30 ára aldri. Munurinn var aðeins meiri á meðal karla þar sem ólifuð ævi 30 ára karla með framhaldsskólamenntun var að meðaltali 52,2 ár eða þremur árum lengri en karla með grunnskólamenntun, segir í tilkynningu Hagstofunnar. 

Ævilengd 30 ára eftir menntun og kyni 2011-2021

Þrítugir háskólamenntaðir einstaklingar eiga von á því að lifa mun lengur en þeir sem minni menntun hafa. Þannig var ætluð ólifuð meðalævi 30 ára kvenna með háskólamenntun 56,3 ár eða 3,6 árum lengri en þrítugra kvenna með grunnskólamenntun árið 2021. Ólifuð ævilengd 30 ára karla með háskólamenntun var 54,2 ár eða tæpum fimm árum lengri en þrítugra karla með grunnskólamenntun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert