Síður von á alvarlegum afleiðingum hér

Kórónuveirufaraldurinn leiddi til fækkunar á greiningum nýrra tilfella krabbameina á …
Kórónuveirufaraldurinn leiddi til fækkunar á greiningum nýrra tilfella krabbameina á Norðurlöndunum og mestu áhrifin voru í Svíþjóð mbl.is/Árni Sæberg

Á Íslandi var fækkun krabbameinsgreininga í kórónuveirufaraldrinum árið 2020 minni en á flestum hinna Norðurlandanna, að því er fram kemur í nýrri Norrænni rannsókn

Krabbameinsfélagið vekur athygli á þessu. 

Í rannsókninni var nákvæmur samanburður gerður við árin á undan og milli Danmerkur, Finnlands, Færeyja, Íslands, Noregs og Svíþjóðar.

Mest fækkun í Svíþjóð

Niðurstöðurnar sýndu að í apríl og maí fækkaði krabbameinsgreiningum í öllum löndunum nema Færeyjum.

„Mest var fækkunin í Svíþjóð (31% í maí) en minnst á Íslandi (17% í maí). Seinni hluta ársins 2020 fjölgaði aftur á móti krabbameinsgreiningum á Íslandi og í árslok hafði fjöldi nýrra greininga náð að bæta upp fækkunina sem orðið hafi á fyrsta ársfjórðungi. Greiningum fjölgaði einnig í (Svipað var uppi á teningnum í) Danmörku og Noregi, þó í minna mæli en hérlendis. Staðan var öllu verri í Svíþjóð og Finnlandi þar sem heildarfækkun greininga var 6,2% (Svíþjóð) og 3,6% (Finnlandi). Breytingar í Færeyjum voru innan skekkjumarka,“ segir í fréttatilkynningu frá Krabbameinsfélaginu um málið. 

Þar kemur fram að seinkun á greiningu krabbameina geti leitt til þess að þau greinist á hærra stigi. 

„Reikna má með að heildarfækkun krabbameinsgreininga árið 2020 hjá Svíum og Finnum verði bætt upp árin 2021 og 2022, en þá er hætt við að mörg meinanna muni greinast á hærri stigum. Á Íslandi fluttust greiningarnar aðeins til innan ársins 2020 og því er síður von á alvarlegum afleiðingum síðkominna greininga hérlendis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert