Kallaður á fund og nærveru hans ekki óskað

Míkhaíl Noskov, sendiherra Rússlands á Íslandi.
Míkhaíl Noskov, sendiherra Rússlands á Íslandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Míkhaíl Noskov, sendiherra Rússlands á Íslandi, var boðaður á fund í utanríkisráðuneytinu í dag.

Á fundinum ítrekuðu íslenskir embættismenn fordæmingu stjórnvalda á innrás Rússlands í Úkraínu og gerðu grein fyrir afstöðu Íslands til innrásarinnar, samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu.

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra sótti ekki fundinn.

Boðaður fjórum sinnum á fundi

Er þetta í fjórða skipti sem sendiherrann er boðaður til fundar í ráðuneytinu undanfarna mánuði, það er bæði í aðdraganda innrásarinnar 24. febrúar og eftir hana.

Noskov var líka gert grein fyrir því að nærveru hans væri ekki óskað við hátíðahöld 17. júní, en sendiherrum erlendra ríkja er jafnan boðið til þeirra.

Nasistaöfl í skjóli yfirvalda

mbl.is ræddi við Noskov 26. febrúar, tveimur dögum eftir innrásina. Þá sagði hann nas­ista­öfl þríf­ast í skjóli yf­ir­valda í Úkraínu.

„Það er megin­á­stæða þess­ara hernaðaraðgerða núna, að brjóta á bak her­inn í Úkraínu, sem og að losna við nas­ist­ana sem eru þar. Aðeins þannig verður hægt að tryggja ör­yggi íbúa á Don­bas-svæðinu, sem og Rúss­lands,“ sagði sendiherrann.

Ekki sendur úr landi

Þór­dís Kol­brún tjáði mbl.is í byrjun aprílmánaðar að verið væri að endurmeta hvort senda ætti sendiherrann úr landi.

„Lit­há­en send­ir sendi­herra heim en slít­ur ekki stjórn­mála­sam­starfi við Rússa. Önnur ríki hafa sent fjölda starfs­fólks heim, við erum með fáa starfs­menn og svari Rúss­land í sömu mynt erum við með óstarf­hæft sendi­ráð í Moskvu,“ sagði hún þá.

„Við horf­um á það sem önn­ur ríki í kring­um okk­ur eru að gera og það er að þokast í eina átt svo við get­um ekki úti­lokað neitt. En við fylgj­umst áfram með þróun ná­granna­landa og þurf­um að vega og meta þetta sjálf frá okk­ur.“

mbl.is