Hótel Búðir tvöfalt stærra eftir breytingar

Nú er grafið fyrir nýrri byggingu sem rísa á við …
Nú er grafið fyrir nýrri byggingu sem rísa á við Hótel Búðir.

„Það var þröngt um okkur. Í gamla hótelinu var hvert einasta skúmaskot nýtt en nú horfir til betri vegar,“ segir Örn Andrésson, einn eigenda Hótels Búða á Snæfellsnesi.

Framkvæmdir eru hafnar við stækkun hótelsins. Mun það tvöfaldast að stærð og verða tæpir þrjú þúsund fermetrar eftir breytingarnar. Örn segir að mikil breyting felist í stækkuninni. „Herbergjum fjölgar úr 28 í 52. Það verður kjallari undir nýja hlutanum og þar verður til pláss fyrir eldhús, geymslu og kæla, þvottahús og fleira.“

Stækkun Búða hefur verið á teikniborðinu um nokkurra ára skeið en Örn segir að ýmislegt hafi komið upp sem tafði þær. „Covid og fleira. En nú er þetta loksins komið í gang og við erum byrjaðir að grafa. Það eru öll leyfi í höfn. Við erum náttúrlega í friðlandi; þótt þetta sé ekki innan þjóðgarðs er hraunið friðað og þarna í kring eru gamlar tóftir og fleira sem taka þarf tillit til.“

Við stækkunina verður þriðja álman byggð sunnanmegin við hótelið þar sem verið hefur hluti af bílastæði. Nú er grafið fyrir kjallara og á þeirri vinnu að vera lokið áður en sumartörnin hefst. Í haust verður hótelið svo reist úr forsteyptum einingum. „Það á að vera komið upp fyrir lok árs og planið er að vera búin með þessar breytingar fyrir næsta vor. Við munum þurfa að loka í einhvern tíma í vetur en reynum að hafa það eins stutt og hægt er. Það er af því að tengja þarf saman gömlu og nýju bygginguna. Þá þarf að rífa niður og tengja saman allar hæðir, koma fyrir lyftu og fleiru,“ segir Örn sem vill ekki upplýsa um kostnað við stækkunina.

Nánar er rætt við Örn í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert