Barn á Furuskógi lengi glímt við erfið veikindi

Barnið hefur glímt við ítrekaðar lungnasýkingar, útbrot og hegðunarbreytingar.
Barnið hefur glímt við ítrekaðar lungnasýkingar, útbrot og hegðunarbreytingar. mbl.is

Móðir barns á leikskólanum Furuskógi við Áland þar sem mygla kom í ljós nýverið er mjög ósátt við að foreldrum hafi ekki verið gerð grein fyrir alvarleika stöðunnar og upplifir að upplýsingum hafi verið sópað undir teppi. Barnið hefur verið mikið veikt mánuðum saman og gengið illa að ná bata. Móðirin segir málið allsherjar „skandal“ og að allir reyni að firra sig ábyrgð.

Í tveimur skýrslum sem unnar voru af Verksýn í febrúar og mars um ástand húsnæðisins, og mbl.is hefur undir höndum, kemur fram að mjög mikil mygla hafi greinst í nánast öllum sýnum og að um skaðlega sveppi sé að ræða. Svartmygla var meðal þeirra myglutegunda sem fannst. Greint var frá málinu á mbl.is í gær.

Skýrslurnar voru ekki kynntar fyrir foreldrum en leikskólastjórnendur sendu út tvo upplýsingapósta með takmörkuðum upplýsingum, að mati foreldra.

Ítrekaðar lungnabólgur, astmi og útbrot 

Barnið sem áður var nefnt byrjaði í leikskólanum síðasta haust og hefur frá því í desember glímt við erfið veikindi. Ítrekaðar lungnabólgur, astma og svæsin útbrot, ásamt því að sýna breytingar á hegðun. Barnið, sem enn hefur ekki náð heilsu, er undir eftirliti sérfræðilæknis sem segir mygluna espa upp öll þessi einkenni. Í síðustu viku þurfti að hækka steraskammt barnsins vegna öndunarfæraeinkenna.

Móðirin segist stöðugt hugsa hvaða afleiðingar það kunni að hafa fyrir barn hennar að vera í þessu umhverfi. Þá segist hún vita til þess að fleiri börn á leikskólanum hafi glímt við óeðlilega mikil veikindi síðustu mánuði

Skilur að fólki finnist ekki vera komið hreint fram

Helgi Grímsson, formaður skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segist skilja að bæði foreldrum og starfsfólki finnist eins og ekki hafi verið komið hreint fram í málinu. Hann segir mikilvægt að útskýra vel hvað sé að og hvernig eigi að bæta það. Það hafi farist fyrir í þessu máli. Ekki sé verið að vera að fela neitt fyrir fólki.

„Ég skil vel að fólk sem hefur fengið þessa upplýsingapósta sem við sendum og sér síðan þessa tegundagreiningu og lýsingu á tegundum og hvaða usla þær geta valdið. Það er mjög eðlilegt að fólk sé sjokkerað. Þarna þurfum við að gera betur,“ segir Helgi í samtali við mbl.is.

Sérfræðingar ekki kynnt niðurstöðurnar nógu vel

Nokkrir aðilar sátu fundi þar sem farið var yfir skýrslurnar með ráðgjafa frá úttektaraðila. Meðal annars leikskólastjórinn, fulltrúi frá leikskólaskrifstofunni og fulltrúi frá umhverfis- og skipulagssviði. Helgi segir að úttektaraðilar hafi ekki gert grein fyrir stöðunni þannig að hætta væri á ferðum og rjúka þyrfti með starfsemina annað. Ekki hafi því verið greint frá niðurstöðum skýrslunnar með nógu afgerandi hætti fyrir leikmenn.

Hann harmar hann að leikskólastjóri hafi setið undir ámælum vegna málsins. Sérfræðingar hafi sagt að ekki þyrfti að hafa áhyggjur. „Hún er full sannfæringar um að hún sé að gera allt sem er satt og rétt.“

Helgi segir þetta líka erfitt að því leyti að engin alþjóðleg viðmið eða gildi séu til staðar fyrir myglu. Ráðgjöfin geti því verið mismunandi á milli sérfræðinga. Því geti verið erfitt fyrir þá sem ekki eru sérfræðingar að meta hvað skuli gera í stöðunni.

„Það er eitthvað sem við þurfum að skoða betur hjá borginni, þeir þurfa kannski með skýrari hætti að útskýra fyrir foreldrum hver staðan er og til hvaða aðgerða þurfi að grípa í ljósi þessara niðurstaðna,“ segir Helgi og bætir við:

„Þetta skiptir fólk miklu máli. Það er ekki verið að fela neitt en það þarf að útskýra fyrir fólki um hvað málið snýst og við þurfum að gera það betur.“

Ekki talað um myglu í fyrri upplýsingapósti

Foreldrar barna á leikskólanum hafa fengið senda tvo upplýsingapósta um ástandið á húsnæðinu. Þann fyrri 25. febrúar síðastliðinn. Þar kom fram að ákveðið hefði verið að ráðast í allsherjarþrif á leikskólahúsnæðinu eftir að ábendingar bárust frá starfsfólki um að tilefni gæti verið til að kanna gæði innvistar. Þá var einnig greint frá því að tekin yrðu kjarnasýni í kjölfarið og farið í viðgerðir á sýnilegum skemmdum.

Á þeim tíma hafði þegar greinst mikil mygla í strokusýnum sem tekin höfðu verið, en ekkert var minnst á það í póstinum.

Seinni pósturinn barst foreldrum 23. mars. Þar kom að mygla hefði greinst bæði í strokusýnum, sem tekin voru í byrjun febrúar, og kjarnasýnum sem tekin voru eftir allsherjarþrif. Útlistað var hvað hefði verið gert til að kanna ástand húsnæðisins og að eftir víðtæka skoðun væri rót vandans talin vera í skriðkjallara undir húsinu, þar sem mikill raki fannst.

Fyrst farið fram á úttekt á loftgæðum árið 2019 

Það var fyrst snemma árs 2019 sem stjórnendur fóru fram á úttekt á loftgæðum í skólanum og var niðurstöðu skilað um sumarið sama ár. Í framhaldinu var farið í ýmsar endurbætur og meðal annars skipt um þak á leikskólanum. Þetta kemur fram í upplýsingum frá Reykjavíkurborg.

Svo var það í upphafi þessa árs að starfsmaður hóf störf á leikskólanum sem fann fyrir einkennum sem hann hafði fundið fyrir á fyrri vinnustað og voru rakin til slæmra loftgæða. Þá var aftur ráðist í úttekt sem leiddi til þeirrar niðurstöðu að mikil mygla væri í húsnæði leikskólans og að um skaðlega sveppi væri að ræða, líkt og fram hefur komið.

Fram kom á foreldrafundi í gærmorgun, líkt og mbl.is greindi frá, að ákveðið hefði verið að færa alla starfsemi leikskólans í Safamýrarskóla meðan á endurbótum stendur. Gert er ráð fyrir að hægt verði að hefja starfsemi í Furuskógi að nýju að loknu sumarleyfi og að þá verði endurbótum lokið. 

Móðirin sem ræddi við mbl.is segist hafa fengið þær upplýsingar að ekki hefðu verið tekin myglusýni í Safamýrarskóla og er hún því óviss með hvort hún treysti sér yfir höfuð til að senda dóttur sína þangað.

mbl.is