250 umsóknir bárust um störf hjá Eflingu

Öll störf á skrifstofu Eflingar voru auglýst fyrr í mánuðinum.
Öll störf á skrifstofu Eflingar voru auglýst fyrr í mánuðinum. Samsett mynd/mbl.is

Alls bárust um 250 umsóknir um störf hjá Eflingu sem auglýst voru eftir hópuppsagnir á skrifstofu félagsins í apríl. Umsóknarfrestur rann út í gær en auglýst var eftir allt frá þjónustufulltrúum upp framkvæmdastjóra.

Ekki liggur fyrir um hve mörg stöðugildi er að ræða en ljóst er að ákveðin störf á skrifstofunni hafa annað hvort verið felld niður eða þeim útvistað.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, greinir frá fjölda umsókna á Facebook-síðu sinni. Hún segir nú hefjast vinnu við að skoða þær og meta.

Greiða út 70 milljónir til 190 félaga

Hún segir það hafa verið áskorun að tryggja grunnþjónustu við félagsfólks sökum „fjölda-veikinda“ starfsfólks, en það hafi þó tekist. Stjórnin hafi sett það í forgang að sjúkradagpeningar yrðu greiddir og á morgun verði greiddar út samtals 70 milljónir til um 190 félaga.

„Ég vona innilega að sá vinnufriður sem ég hef ítrekað óskað eftir fyrir hönd stjórnar félagsins fari að komast á og að við getum óáreitt einbeitt okkur að því sem mestu máli skiptir, því að halda áfram við að breyta Eflingu í öflugustu samtök verka og láglaunafólks á Íslandi,“ segir Sólveig.

Hún vísar til þess að hún og félagar hennar á Baráttulistanum hafi nú síðast fengið afdráttarlaust umboð til að stýra félaginu á fjölmennum félagsfundi sem fór fram í Valsheimilinu í vikunni. En þar var felld tillaga um að draga hópuppsagnir á skrifstofunni til baka.

„Átökin hafa verið hörð og erfið, en þau eru þess virði.“

Þau sem taka slaginn ekki vinsæl

Sólveig rifjar upp að áður en hún kom inn í verkalýðshreyfinguna hafi hún ekki þekkt mikið til og forystan virst lifa í allt öðrum efnislegum heimi en hún og aðrar láglaunakonur sem hún starfaði með.

„Þar voru launin há, og fólk var búið að koma sér rækilega fyrir sem meðlimir í íslenskri milli og efri-millistétt.“

Segist hún núna vera reynslunni ríkari um allt er viðkemur félaginu, verkalýðshreyfingunni, samskiptum við svokallaða viðsemjendur, átökum við þá og stjórnvöld, og það hvar, hvernig og hvenær stéttaátökin geta blossað upp.

„Ég veit núna að oft á tíðum fer erfiðasta baráttan fram á vettvangi sjálfrar hreyfingarinnar og að þau sem eru til í að taka þann slag eru ekki vinsæl.“

mbl.is