Birti uppsagnarbréfið á Facebook

Bráðamóttaka Landspítalans.
Bráðamóttaka Landspítalans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi hefur birt uppsagnarbréfið sitt á Facebook í von um að vekja athygli á ástandinu þar og til að fá ráðamenn til að bregðast við.

Hrönn Guðbjartsdóttir hjúkrunarfræðingur, sem veitti mbl.is góðfúslegt leyfi til að birta færsluna, segist í samtali við blaðamann hafa starfað á bráðamóttökunni í fimm mánuði. Áður starfaði hún á bráðamóttöku í sænsku borginni Karlstad þar sem hún segir ástandið hafa verið betra.

Hjúkr­un­ar­fræðing­ar á bráðadeild hafa áður kraf­ist þess að stjórn­völd og Land­spít­al­inn staðfesti skrif­lega að ábyrgðin liggi þar en ekki hjá hjúkr­un­ar­fræðing­um ef upp koma al­var­leg at­vik sem má rekja beint eða óbeint til álags á bráðamót­tök­unni.

Getur ekki tryggt öryggi sjúklinga

Í færslunni segir Hrönn ástæðu uppsagnarinnar vera að vegna álags á deildinni telur hún sig ekki geta tryggt öryggi sjúklinganna sem hún er ábyrg fyrir hverju sinni.

Hún segir hjúkrunarfræðinga á bráðamóttökunni vera ábyrga fyrir inniliggjandi sjúklingum sem allir þurfi á hjúkrun að halda, á sama tíma og nýir sjúklingar komi inn sem þurfi á bráðri hjúkrun og læknisaðstoð að halda.

„Með marga inniliggjandi sjúklinga og stöðugt innflæði af nýjum sjúklingum  þarf að forgangsraða verkefnum og því miður kemur það niður á öryggi sjúklinga.  Eftir að hafa unnið í mörg ár á bráðamóttöku er ég vön því að forgangsraða en ástandið á BMT er, eins og staðan er núna, að mínu mati óásættanlegt og ég tel að sú forgangsröðun sem þar þarf að gera stefni sjúklingunum í hættu,“ skrifar Hrönn og bætir við að hún vilji ekki vera ábyrg fyrir mannslífum þegar hún geti ekki gert það sem þurfi fyrir sína sjúklinga.

„Að gera mitt besta í ómögulegum aðstæðum nægir ekki. Ég vil geta nýtt kunnáttu mína og hæfni sem ég hef eftir áralangt starf á bráðamóttöku og framhaldsnám í bráðahjúkrun en sé ekki hvernig ég á að geta það eins og staðan er,“ skrifar hún einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert