Fjölgun slysa nær aðeins til rafmagnshlaupahjóla

Helsta orsök slysa á rafmagnshlaupahjólum er að börn ráða ekki …
Helsta orsök slysa á rafmagnshlaupahjólum er að börn ráða ekki við hjólin og fólk er á leið heim af skemmtanalífinu seint að kvöldi. mbl.is/Hari

Slysum á reiðhjólum, rafmagnsreiðhjólum og rafmagnshlaupahjólum fjölgaði mjög mikið í fyrra en það má að stærstum eða öllum hluta rekja til mikillar fjölgunar slysa á rafmagnshlaupahjólum. Alvarlegum slysum á þessum tækjum fjölgar einnig mikið á milli ára, eða úr 4 í 35 og segir sérfræðingur hjá Samgöngustofu að slys á þessum tækjum séu nú orðin stór hluti af heildarmyndinni þegar kemur að umferðarslysum. Stóran hluta þessara slysa má þó rekja til tveggja notendahópa og hægt eigi að vera að fyriyggja þau að miklu leyti.

„Í fyrra varð algjör sprenging í þessum slysum. Við sáum þetta fyrst árið 2020, en þetta margfaldaðist í fyrra,“ segir Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu, í samtali við Morgunblaðið. „Þetta er orðið stórt vandamál og áberandi hluti af heildarmyndinni varðandi umferðarslys.“

Graf/mbl.is

Þessi fjölgun slysa virðist aðeins ná til rafmagnshlaupahjólanna, en Gunnar segir að þegar komi að hefðbundnum reiðhjólum sé um svipaðan fjölda að ræða og árin á undan. Svipaða sögu sé að segja um rafmagnshjól, en vinsældir þeirra hafa aukist mikið undanfarin ár, en slysin séu enn nokkuð fá. Þá hafi slys á rafmagnsvespum einnig haldist að mestu í stað eftir mikið stökk árin 2016 og 2017.

Í fyrra skráði lögreglan 241 slys á fólki sem ferðaðist á hjóli, rafhjóli, rafmagnshlaupahjóli eða öðrum sambærilegum farartækjum. Til samanburðar var þessi fjöldi 164 árið á undan og árið 2019 voru slysin 101. Því er um að ræða 47% aukningu milli ára og ef horft er aftur um tvö ár nemur aukningin 138%.

Af þessu 241 slysi voru tvö banaslys, annað hjá reiðhjólamanni og hitt hjá aðila á rafmagnshlaupahjóli. Þá voru 63 slys sem flokkast sem alvarleg slys, eða samtals um 27%.

Þegar horft er til heildarfjölda þeirra sem slösuðust alvarlega eða létust í umferðinni í fyrra hefur „óvörðum vegfarendum“ fjölgað mjög mikið, en það er samheiti yfir þá vegfarendur sem eru gangandi eða á fyrrnefndum tækjum. Gunnar segir að í fyrra hafi fjöldi þeirra verið 42% af heildarfjölda látinna og alvarlega slasaðra og hafi ekki áður mælst svo hátt.

Gunnar segir jafnframt að slys á rafmagnshlaupahjólum séu ekki slys sem séu að færast út frá öðrum farartækjum. Þ.e. þetta séu ekki bara slys sem verði vegna þess að fólk noti rafmagnshlaupahjólin miklu meira og þannig fækki slysum t.d. sem verði á reiðhjólum eða bílum. „Þetta virðist bara vera viðbót,“ segir hann. Bendir hann á að kannanir erlendis frá bendi til þess að ef fólk hefði ekki haft aðgang að rafmagnshlaupahjólum þá teldu flestir að þeir hefðu gengið í staðinn. „Þú lendir sjaldnast í slys gangandi nema þegar það er keyrt á þig, en flest slys á rafmagnshlaupahjólum eru þegar fólk dettur á þeim,“ segir hann.

Endurspeglar breytingar vel á milli ára

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að slys hjá öðrum en ökumönnum bifreiða eru að öllum líkindum mjög vantalin. Segir Gunnar að þetta megi meðal annars sjá á tölum sem Landspítalinn hafi stundum tekið saman um ástæður þess að fólk komi til þeirra og að rannsóknir erlendis bendi til að aðeins um fjórðungur þessara slysa séu tilkynnt til lögreglu, en það eru þær tölur sem Samgöngustofa notar. Gunnar segir að því séu slys á þessum tækjum líklega milli þrefalt og fjórfalt fleiri en tölurnar sýni. Hann segir tölurnar þó vera mjög samanburðahæfar milli ára, því að skráningaforsendurnar hafi ekkert breyst. „Við teljum þetta því endurspegla breytingar vel á milli ára,“ segir hann.

Spurður um ástæðu þess að slysum á rafmagnshlaupahjólum sé að fjölga svona mikið og af hverju þau séu almennt mörg segir Gunnar að áhugavert sé að bera fjöldann saman við slys á reiðhjólum og rafmagnsreiðhjólum. Segir hann að allt bendi til þess að notkun reiðhjóla og rafmagnsreiðhjóla sé enn miklu meiri en rafmagnshlaupahjóla. Á rafmagnshlaupahjólunum séu hins vegar lítil dekk, ökumenn hafi hendur nálægt líkamanum og jafnvægispunkturinn sé nokkuð skrítinn. Þetta valdi því að fólki sé hættara að detta við minni ójöfnur og að það nái síður að bera hendur fyrir andlit sér við fall. Því séu andlitsslys t.d. mun algengari á rafmagnshlaupahjólunum en hinum farartækjunum og að slík slys teljist jafnframt oft til alvarlegra slysa.

Börn og djammheimferðartíminn

Þá segir hann að tveir notendahópar noti rafmagnshlaupahjólin mikið og séu stór hluti af þeim slösuðu. Í fyrsta lagi sé um að ræða börn sem ráði ekki enn við þau en svo sé það fólk á leið heim af djamminu. „Þetta er alveg sérstaklega óskynsamlegur ferðamáti undir áhrifum áfengis og við sjáum mikið af slysum á þessum tækjum á djammheimferðartíma,“ segir Gunnar, en þar á hann við tímabilið milli ellefu og fjögur á föstudags- og laugardagskvöldum.

Árið 2019 var heildarfjöldi slysa á fólki sem ferðaðist á …
Árið 2019 var heildarfjöldi slysa á fólki sem ferðaðist á hjóli, rafhjóli eða rafmagnshlaupahjóli og lögreglan skráði 101. Ári síðar var fjöldinn 164 og í fyrra var hann kominn upp í 241. mbl.is/Hari

Segir hann tölfræðina frá lögreglunni fyrir fyrstu tíu mánuði síðasta árs sýna þetta svart á hvítu. Þannig séu t.d. aðeins 3% allra slysa gangandi, fólks á reiðhjólum og bifreiðaslysa á innan þessa tímaramma sem Gunnar kallar djammheimferðartími, en 23% allra slysa á rafmagnshlaupahjólum. Ef horft er til banaslysa og alvarlegra slysa sé hlutfallið áfram lágt í öðrum flokkum, eða 0% á reiðhjólum, 3% hjá bifreiðum og 6% hjá gangandi. Hins vegar sé hlutfallið 39% hjá fólki sem ferðast á rafmagnshlaupahjólum.

Segir hann þennan mun koma nokkuð vel í ljós líka þegar horft sé á orsakavalda slysanna, en í tilfellum rafmagnshlaupahjólanna verði lang flest slysin þegar fólk detti sjálft. „Það eru oftast slæm slys og jafnvel andlitslýti,“ segir Gunnar. Með reiðhjól og rafmagnsreiðhjól séu hlutfallslega fleiri slys t.d. þar sem reiðhjólastígar krossi götur og meiri tenging við bílaumferð. Þá segir hann einnig skipta máli að fleiri noti hjálm á reiðhjólum en á rafmagnshlaupahjólum.

Þurfum að losna undan byrjunarörðugleikum

„Fararmátinn er mjög sniðugur almennt,“ segir Gunnar um rafmagnshlaupahjólin, „en við þurfum að losa okkur undan þessum byrjunarörðuleikum.“ Segir hann að þar þurfi m.a. að horfa til þess að setja börn ekki á rafmagnshlaupahjól sem þau ráði ekki við. „Við þurfum að læra að nota þessi tæki og átta okkur á að þau fara t.d. ekki saman með áfengi,“ bætir hann við. Segir hann stöðuna vera allt aðra ef þessum tveimur ráðum væri fylgt.

Nýlega lauk hópur á vegum innviðaráðuneytisins við tillögur um regluverk í kringum þessa fararmáta, en þar er meðal annars mælt með að laga og breyta lögum þegar komi að rafmagnshlaupahjólum. Má finna þessar tillögur inn á samráðsgátt stjórnvalda. Gunnar segir að þar sé meðal annars verið að stinga upp á miðað sé við 13 ára lágmarksaldur á rafmagnshlaupahjól og að skýra betur reglur í kringum ölvun og hjól og rafmagnshlaupahjól. Þá sé líka horft til rafmagnshlaupahjóla sem geti farið mjög hratt, jafnvel á 60-70 km/klst. hraða. Segir hann allar lagatúlkanir segja þetta ólöglegt, en að ekki sé þó tekið nógu skýrt á því í lögunum. Spurður hvort hann telji 13 ára lágmarksaldurinn vera skynsamlega leið segir Gunnar að á Samgöngustofu hugnist fólki þessar tillögur ágætlega og telji aldursviðmiðið skynsamlegt.

„Við erum bara 2-3 árum á eftir nágrannaþjóðum okkar sem fengu þessi tæki fyrr á göturnar,“ segir Gunnar og bendir á að víða hafi verið settar reglur um vímuefni og notkun þeirra sem og jafnvel hjálmaskyldu. Gunnar segist ekki eiga von á því að nein breyting verði á þessum málum á þessu ári, en að líklega muni ráðuneytið fara yfir tillögurnar og koma svo með frumvarp á næsta þingi þannig að breytingarnar kæmu til kasta fyrir næsta sumar.

Fram að því segir hann að Samgöngustofa muni leggja áherslu á upplýsingar og fræðslu til almennings um þessi tvö fyrrnefndu atriði sem þau telji sérstaklega mikilvæg til að koma í veg fyrir slys á rafmagnshlaupahjólum. Í fyrsta lagi að nota þau ekki undir áhrifum og svo að foreldrar láti börn sín ekki á rafmagnshlaupahjól sem þau ráði ekki við.

Þessi grein birt­ist fyrst í Hjóla­blaði Morg­un­blaðsins sem kom út á laug­ar­dag­inn. Þar má finna fjöl­marg­ar grein­ar, ferðasög­ur og um­fjall­an­ir um mál­efni sem tengj­ast hjól­reiðum. Hægt er að nálg­ast blaðið í heild hér að neðan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »