„Þetta er allt saman á fleygiferð“

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, er ánægður með stöðuna.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, er ánægður með stöðuna. Ljósmynd/Aðsend

Ástandið í Reykjanesbæ hefur heldur betur snúist til betri vegar á síðustu mánuðum og segir bæjarstjórinn nú „allt á fullu“. Suðurnesin, þar sem Reykjanesbær er staðsettur, fóru sérstaklega illa út úr kórónuveirufaraldrinum hvað atvinnuleysi varðar.

Það hefur nú í nokkra mánuði haldist undir 10% en hæst fór það í tæp 25%.

„Það má segja að það sé allt á fullu hérna núna. Það munar hvað mest um flugvöllinn, að hann er kominn af stað,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, í samtali við mbl.is.

Eins og alþjóð veit lögðust flugsamgöngur svo til af í faraldrinum og fundu Íslendingar, sú mikla ferðamannaþjóð, vel fyrir því. Íbúar á Suðurnesjum urðu hvað verst úti í þeim efnum enda starfar stór hluti þeirra á flugvellinum eða í greinum sem honum tengjast.

Nýtt hjúkrunarheimili og ákvörðunar að vænta um nýja heilsugæslu

Þó staðan í Reykjanesbæ sé ekki alveg jafn góð og hún var fyrir faraldur hafa fjölmargar jákvæðar breytingar átt sér stað. Bætt hefur í framkvæmdir með vorinu og eru ýmis verkefni að fara í gang.

„Ekki síst aftur við flugvöllinn og flugstöðina. Það gerist svolítið mikið þar. Þannig að uppbyggingin og þetta er allt saman á fleygiferð,“ segir Kjartan.

Á föstudaginn er svo áformuð skóflustunga með heilbrigðisráðuneytinu vegna nýs hjúkrunarheimilis.

„Svo styttist vonandi í ákvörðun framkvæmdasýslu ríkisins um nýja heilsugæslustöð sem við erum að undirbúa hérna líka,“ segir Kjartan.

Aðspurður segir hann að bæjarbúar séu hressari en þeir voru í faraldrinum.

„Við merkjum það mjög greinilega.“

Mikil uppbygging á sér nú stað í Reykjanesbæ.
Mikil uppbygging á sér nú stað í Reykjanesbæ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sterkur fjárhagur

Helsta áskorunin, að sögn bæjarstjórans, er atvinnustaða 16 til 17 ára ungmenna.

„Það er 18 ára aldurstakmark inn á flugvöllinn vegna flugverndarmála. Vinnuskólinn okkar er bara fyrir grunnskólakrakka,“ segir Kjartan.

16 og 17 ára ungmenni falla því sum hver á milli skips og bryggju. Þau gátu í fyrrasumar og sumarið þar á undan sótt í ríkisstyrkta atvinnu á vegum bæjarins vegna kórónuveirufaraldursins.

„En nú er ríkið ekki lengur að setja peninga í það, kannski eðlilega, og þá erum við ekki heldur að búa til störf fyrir þennan hóp,“ segir Kjartan.

Þetta var ekki vandamál fyrir kórónuveirufaraldurinn og er Reykjanesbær nú farinn að stilla sig inn á sömu viðmið í fjárhagsáætlun og var áður.

Spurður um fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins segir Kjartan hana góða.

„Við stöndum bara mjög vel og búum að því að hafa tekið til í okkar málum síðustu árin. Fjárhagur sveitarfélagsins er bara sterkur og allt saman í miklu betri málum en var.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert