Rafskútur toppuðu 2020 en rafmagnshjólum fjölgar

Bæði rafmagnshjól og hefðbundin hjól eru nú algeng sýn.
Bæði rafmagnshjól og hefðbundin hjól eru nú algeng sýn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eftir gríðarlega aukningu í sölu á rafmagnsfarartækjum árið 2020 fækkaði nokkuð þeim farartækjum sem flutt voru hingað til lands á síðasta ári. Nemur fækkunin um 10 þúsund tækjum á milli ára, úr 24 þúsund rafmagnsfarartækjum niður í 14 þúsund. Á sama tíma stendur innflutningur á hefðbundnum reiðhjólum svo gott sem í stað og er áfram um 17 þúsund. Þetta má sjá á tölum Hagstofu Íslands um innflutning á þessum tækjum.

Er þá rafmagnsbyltingin í hjólum að ganga til baka og var þetta bara bóla eins og með margt annað hér á landi í gegnum tíðina? Svo virðist ekki vera og ef betur er að gáð má sjá að þessi mikla fækkun í innflutningi rafmagnsfarartækja kemur aðeins að litlum hluta niður á innflutningsverðmæti og aukningin er í raun aðeins í fjölda rafmagnshlaupahjóla á meðan innflutningur á rafmagnsreiðhjólum heldur áfram að aukast.

Mikil fækkun hlaupahjóla í fyrra

Í Hjólablaðinu í fyrra var sagt nánar frá þessari sprengingu sem varð í sölu á rafmagnsfarartækjum, en salan jókst jafnt og þétt frá árinu 2016 og sprakk svo algjörlega út árið 2020. Það ár voru flutt inn 3.470 rafmagnshjól, 19.579 rafmagnshlaupahjól og 596 önnur rafmagnsfarartæki. Samtals um 23.500 slík tæki. Ljóst var að rafmagnshlaupahjólin leiddu þessa sprengingu, en fjöldi þeirra var um fjórfaldur þetta árið og allra rafmagnsfarartækja sem flutt voru inn árið á undan.

Graf/mbl.is

Á síðasta ári var fjöldi rafhlaupahjóla sem flutt voru inn til landsins hins vegar aðeins 7.846, eða tæplega 12 þúsund færri en árið á undan. Öðrum rafmagnsfarartækjum fækkaði og voru ekki nema 126, en rafmagnsreiðhjólum fjölgaði um tæplega tvö þúsund. Öll þessi breyting varð til þess að verðmæti innfluttra rafmagnsfarartækja minnkaði um 200 milljónir milli ára, en þar af nam lækkunin á hlaupahjólunum 400 milljónum á meðan rafmagnshjólin hækkuðu um 200 milljónir.

Árið 2020 var farið að flokka innflutning þessara tækja betur …
Árið 2020 var farið að flokka innflutning þessara tækja betur en áður hafði verið og má sjá þá sundurliðun hér. Graf/mbl.is

Róbert Grétar Pétursson, framkvæmdastjóri verslunarinnar TRI, segir í samtali við Hjólablaðið að þegar þessar tölur séu skoðaðar þurfi að hafa í huga að árið 2020 var árið sem rafhlaupahjólaleigurnar sprungu út og að stór hluti innflutnings það ár hafi verið vegna þeirra. Einnig hafi slík hlaupahjól verið gríðarlega vinsæl meðal unglinga og ungs fólks og margir fjárfest í tækjunum. Í kjölfarið fór fólk að sjá möguleikana með þessum tækjum við að komast í og úr skóla/vinnu og skjótast á milli staða.

Hlutfall rafmagnshjóla muni aukast áfram

Róbert segist ekki eiga von á því að eftirspurnin eftir rafmagnsfarartækjum eða hefðbundnum reiðhjólum muni falla í ár eða næstu ár, þótt vissulega geti orðið einhver breyting milli flokka og þá aðallega í þá átt að fólk velji rafmagnshjólin fram yfir þau hefðbundnu.

„Ég held að á næstu 2-3 árum verði salan fimmtíu/fimmtíu,“ segir Róbert og bendir á að það sé einnig sú þróun sem sjáist um alla Evrópu, sem sé jafnan aðeins á undan þróuninni hér heima. Segir hann að þar sé nýsala nú næstum því jöfn og að sumar stærri verslanir í Þýskalandi hafi greint frá því að þar sé sala rafmagnshjóla um 90% af allri sölu.

Segir Róbert að hann geri sérstaklega ráð fyrir því að hefðbundin borgarhjól muni í auknum mæli detta út og rafmagnshjólin taka við af þeim. Það sé þróun sem verslunareigendur hér verði vel áskynja um og nefnir hann sem dæmi að í sína búð komi reglulega fólk sem hafi verið að losa sig við bíl tvö og sé að huga að rafmagnshjólum til að koma í staðinn.

Undanfarin ár hefur verið mikill vöxtur í sölu rafmagnsfjallahjóla, en líkt og Hjólablaðið fjallaði um í fyrra hefur orðið mikil ásókn í að geta á auðveldari hátt farið upp stíga og slóða til að ná fleiri niðurferðum en áður var mögulegt þegar erfiða þurfti meira við að koma sér upp. Var þessari breytingu líkt við lyftur á skíðasvæðum.

90% fjallahjóla með rafmagni

Róbert segir að langflestir sem vilji kaupa fulldempuð hjól kaupi í dag rafmagnshjól og að hjá TRI sé hlutfallið um 90% á móti 10% af hefðbundnum slíkum hjólum án rafmagns. Hann segir þetta þó aðeins vera að breytast aftur til baka, því margir sem hafi komið inn í sportið með því að kaupa rafmagnshjól séu nú að horfa til þess að eiga líka hefðbundið fjallahjól fyrir aðrar tegundir af ferðum.

Aldurssamsetningin hefur einnig verið að breytast nokkuð í kaupendahópnum að sögn Róberts og vísar hann þar til þess að 50 ára og eldri séu í dag stærri kaupendahópur en áður. Þar spili sérstaklega inn í áhugi á rafmagnshjólum og nefnir hann að margir sem hafi verið erlendis og leigt sér hjól þar komi heim og vilji þá ólmir fara að nota slík hjól hér heima, bæði sem samgöngutæki og til að leika sér. „Þetta er hópur sem er að koma aukalega inn,“ segir Róbert.

Árið í ár hefur farið rólegra af stað að sögn Róberts, en hann segir að helsta ástæðan þar sé líklega veðurfarið sem var á fyrstu mánuðum ársins miðað við nokkuð milt veður árið áður. „Ég held samt að þetta verði svipað ár og í fyrra,“ segir hann, spurður um væntingarnar. Hann segir að ef það verði veltuaukning í ár verði það þó ólíklega í gegnum aukinn fjölda hjóla, heldur frekar í gegnum fjölgun rafmagnshjóla, sem eru jú dýrari en hefðbundin hjól. Þá sé einnig orðið vinsælt að skoða ýmsa aukahluti og nefnir hann barnavagna sem festir eru við hjól, en Róbert segir að þar sjái hann mikinn mun á því sem áður var og mun fleiri barnafjölskyldur horfi nú til þess að fara leiðar sinnar með börnin á hjóli.

Erfiðara að fá vörur í ár en í fyrra

Segir hann oft sterka tengingu á milli þeirra sem velja þennan kost og þeirra sem setji umhverfis- og loftlagsmál ofarlega á forgangslistann. Þá hafi aldrei verið vinsælla og meiri vitund um að hugsa vel um heilsuna. Bendir Róbert á að eftir fjármálahrunið hafi komið bylgja af fólki sem fór að hlaupa og hjóla og þótt sú bylgja hafi flast út hafi það engu að síður skilað sér í mun stærri hóp fólks sem er duglegur að hreyfa sig. „Þetta gekk aldrei til baka,“ segir Róbert og bætir við að hann sjái svipaða þróun í gangi núna eftir faraldurinn. „Ég held að aukningin eftir Covid muni vara til lengdar.“

Síðan faraldurinn kom upp varð erfiðara að fá vörur á réttum tíma eða bara yfirhöfuð. Róbert segir að svipuð staða sé áfram uppi og í raun sé erfiðara í ár en í fyrra að fá nýjar vörur. Það sé bæði vegna hertra aðgerða í Kína vegna ómíkron-afbrigðisins, en flestir framleiðendur eru í Kína eða Suðaustur-Asíu, og svo vegna stríðsins í Úkraínu. Segir Róbert að meðan hafnir hafi margar hverjar verið lokaðar áður í Kína þá hafi í sumum tilfellum verið hægt að senda varning með lestum sem fóru þá í gegnum Rússland til Evrópu. Það hafi að mestu stoppað eftir að stríðið braust út.

Þessi grein birt­ist fyrst í Hjóla­blaði Morg­un­blaðsins sem kom út á laug­ar­dag­inn. Þar má finna fjöl­marg­ar grein­ar, ferðasög­ur og um­fjall­an­ir um mál­efni sem tengj­ast hjól­reiðum. Hægt er að nálg­ast blaðið í heild hér að neðan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert