Sjötíu tonn af sandi í og úr Hafnarhúsi

„Mér finnst eiginlega best að hugsa um svona listahátíð sem tengistykki og stundum hef ég meira að segja talað um sveppagró í jarðveginum,“ segir Vigdís Jakobsdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík, í samtali við Ragnheiði Birgisdóttur í Dagmálum. 

„Við erum með þessar stóru flottu stofnanir allar hér á Íslandi með sínar voldugu rætur og tengsl við samfélagið og við erum með allan nýgróðurinn og grasrótina og svo er listahátíð það sem getur tengt þetta saman, næstum ósýnilegan hátt,“ skýrir hún. 

„Við getum verið afvaki samstarfs og flæðis í íslensku menningarlífi, og líka út í heim og til baka. Komið með nýja strauma.“

Sólarströnd út svörtum sandi

Listahátíð fer fram 1.-19. júní og þar kennir ýmissa grasa og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. 

Nú þegar mánuður er til stefnu hafa skipuleggjendur í nógu að snúast og nefnir Vigdís sem dæmi að leysa þurfi það hvernig koma eigi 70 tonnum af sandi inn í Hafnarhús og út úr því aftur. 

Þar vísar hún til verksins Sun & Sea, framlang Litháa til Feneyjartvíæringsins 2019, sem vann einmitt aðalverðlaun hátíðarinnar. Sólarströnd, úr svörtum íslenskum sandi, verður sett upp í porti Hafnarhússins og þar munu listamenn og sjálfboðaliðar flytja tónverk og gjörning í fjóra tíma, hvorn sýningardaginn fyrir sig, 4. og 5. júní.

Finna má þáttinn í heild hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert