Sundlaugum landsins gerð skil á HönnunarMars

Seljavallalaug sem var tekin í notkun árið 1923.
Seljavallalaug sem var tekin í notkun árið 1923.

Unnar Ari Baldvinsson, myndlistarmaður og grafískur hönnuður, frumsýnir á morgun prentverkið Sundform þar sem sundlaugar á Íslandi eru umfjöllunarefnið en hönnunarhátíðin HönnunarMars hefst jafnframt á morgun. 

„Þetta er prentverk þar sem hægt verður að kaupa mynd og hengja upp heima hjá sér. Til dæmis ef fólk á sína uppáhaldslaug,“ segir Unnar Ari en mbl.is hafði samband við hann í dag og ræddi við hann um verkið og tilurð þess. Verkið samanstendur af teikningum af fleiri en eitt hundrað sundlaugum á Íslandi. Teikningarnar eru gerðar á einfaldan hátt en farið var eftir ljósmyndum af sundlaugunum. 

„Í lok árs 2019 og í upphafi árs 2020 fór ég að hugsa út í þetta. Ég sá fyrir mér að mig langaði til að teikna allar sundlaugarnar í mínimalískum stíl og nota bara fjóra liti. Það sem vakti áhuga hjá mér var formið, bilið á milli bakkans og heitu pottanna. Hvernig þessu er raðað upp. Þetta varð svolítið langt ferli þar sem ég var að búa til kerfi. Ég tek mér smá skáldaleyfi með því að sleppa því að teikna rennibrautir eða klefa fyrir gufuböð.

Fyrsta laugin sem ég gerði var sundlaugin á Egilsstöðum en tengdaforeldrar mínir búa þar. Þau settu myndina upp á vegg og þá kom í ljós að fólk hefur skoðanir á þessu. Einn sem var staddur hjá þeim setti strax út á að gufuklefann vantaði,“ segir Unnar en hjólin fóru að snúast fyrir alvöru þegar hann fékk styrk til verksins. 

Unnar Ari Baldvinsson.
Unnar Ari Baldvinsson.

„Árið 2020 fékk ég styrk frá Hönnunarmiðstöð til að byrja á þessu almennilega. Ég ákvað að fara um landið og mynda allar laugarnar með dróna vegna þess að Google Maps er ekki nógu skýrt. Ég sá það þegar ég prófaði að teikna Seltjarnarneslaugina eftir Google Maps sem var tæknilega séð fyrsta laugin sem ég teiknaði. En svo kynntist ég Braga Þór Jósefssyni ljósmyndara sem þá var að vinna að bók sinni 100 sundlaugar. Hann var einmitt að mynda sundlaugar og úr varð samstarf hjá okkur. “ 

Lærði sundtökin eftir flutninga til Íslands

Sjálfur stundar Unnar Ari sundlaugarnar en hann lærði hins vegar seint að synda þar sem skólasund var ekki á dagskrá í Danmörku þar sem hann bjó til tíu ára aldurs. 

„Já ég fer mjög mikið í laugarnar. Ég bjó í Danmörku þar til ég var tíu ára og þar var ekki sundkennsla. Ég var því ósyntur þegar fjölskyldan flutti til Íslands og þá þurfti ég að fara í einkakennslu í Neslauginni en við fluttum á Seltjarnarnes. Þess vegna tengi ég sérstaklega við laugina á Nesinu en ég lærði fljótt að synda eftir þetta. Ég stunda laugina mikið bæði til að synda en einnig til að slaka á. 

Ég fann að ég saknaði þess að komast í sund þegar ég var í námi í Flórens á Ítalíu í þrjú ár. Var það í fyrsta skipti sem ég bjó inni í landi og sá aldrei sjóinn. Ég reyndi að leita að sundlaugum þar en það skilaði litlu.“

Heiti potturinn í Vesturbæjarlauginni í útgáfu Unnars Ara.
Heiti potturinn í Vesturbæjarlauginni í útgáfu Unnars Ara.
Sjálfur potturinn.
Sjálfur potturinn.

Sundlaugarnar eiga sess í íslensku þjóðarsálinni en líklega er sjaldgæft að sundlaugar verði hálfgerðar félagssmiðstöðvar eins og raunin er hérlendis. 

„Það er merkilegt hversu margar sundlaugar eru á Íslandi. Það er yfirleitt sundlaug í hverju bæjarfélagi. Frá landnámi er hægt að finna heimildir um sundlaugar í einhverri mynd hjá Íslendingum. Þá var kannski grafin hola, hlaðin laug og tekið affall af heitum læk. Í gegnum tíðina hefur þetta kannski komið í stað almenningsgarða sem staður þar sem hægt er að koma saman. Einnig er hægt að fara í sund þótt ískalt sé úti.  Mér finnst til dæmis best að fara í laugina þegar veðrið er eins og í dag [rigning],“ segir Unnar en hann taldi 103 sundlaugar í sinni yfirferð.  Inni í þeim tölum eru þá ekki náttúrulaugar ýmis konar. 

Heildarútlitið skiptir einnig máli

Syningin verður í Bíó Paradís á Hverfisgötu en eftir mikla vinnu er  Unnar skiljanlega spenntur að sjá útkomuna. 

„Algerlega. Ég á ennþá eftir að sækja útprentin. Teikningarnar eru prentaðar á spjöld sem verða hengd upp í Bíó Paradís. Verður þetta í fyrsta skipti sem ég sé myndirnar allar saman á öðru formi en á tölvuskjá. Ég er mjög spenntur fyrir því vegna þess að stór hluti af verkefninu er heildin. Þá sér fólk þennan fjölda sundlauga en yfir hundrað laugar er rosa mikið fyrir fámenna þjóð. Útlendingum þykir einnig merkilegt hversu margar sundlaugar eru á Íslandi. 

HönnunarMars stendur fram á mánudag en sýningin fær vonandi að lifa aðeins í Bíó Paradís. Í framhaldi af því er stefnan að ferðast með sýninguna um landið,“ segir Unnar Ari Baldvinsson en samhliða þessu mun hann opna vefverslun á slóðinni sundform.is. Þar verður hægt að skoða allar myndirnar og versla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert