Velta fyrir sér heimsendi

Á Listahátíð í Reykjavík, sem fer fram 1.-19. júní, verður meginþemað allt það sem er „hinum megin“. Vigdís Jakobsdóttir listrænn stjórnandi hátíðarinnar segir þetta þema tengjast Covid, umhverfismálum, hinsegin menningu og mörgu öðru.

„Við erum komin hinum megin við Covid. Þó að það sé enn þá Covid í heiminum og við lokum ekki augun fyrir því, þá er heimsmynd okkar breytt. Og í raun og veru er stóri hvatinn við að velja þetta þema er það,“ segir Vigdís. 

„En við erum líka með viðburði sem hvetja okkur til þess að sjá hlutina frá öðru sjónarhorni, mögulega til þess að við stækkum að innan.“

Vigdís bætir við að hinsegin menning sé „ákveðinn þráður á hátíðinni“. Til dæmis komi þangað hin heimsfræga listamanneskja Taylor Mac sem vinni með það hvernig sagan hefur alltaf verið sögð frá einu sjónarhorni. Mac kemur fram 1. og 2. júní í Þjóðleikhúsinu. 

Þá nefnir Vigdís að mikið af listafólki sé upptekið af heimsendapælingum, bæði í tengslum við loftslagsvána og það að stríð sé komið í „bakgarðinn hjá okkur“. Dauðinn sé vissulega „hinum megin“ og falli því vel að þema hátíðarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert