Ný götuheiti til heiðurs Eystrasaltsríkjunum

Göturnar þrjár verða nefndar til heiðurs Eystrasaltsríkjunum þremur.
Göturnar þrjár verða nefndar til heiðurs Eystrasaltsríkjunum þremur.

Þrjár götur í nýju hverfi sem á að byggja upp á Ártúnshöfða í Reykjavík verða nefndar til heiðurs Eystrasaltsríkjunum Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Þetta var samþykkt á fundi skipulagsráðs borgarinnar í morgun. Frá þessu greinir Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar og formaður skipulagsráðs, í færslu á Facebook.

Ísland var fyrst allra landa í heiminum til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna eftir hrun Sovétríkjanna, en 26. ágúst árið 1991 í Höfða skrifuðu utanríkisráðherrar landanna þriggja og utanríkisráðherra Íslands undir samninga um stjórnmálasamband Íslands við ríkin þrjú.

Pawel vekur athygli á því að í öllum höfuðborgum Eystrasaltsríkjanna þriggja séu nú götur og torg sem nefnd séu til heiðurs Íslandi. „Nú endurgjöldum við vináttuna,“ segir hann jafnframt.

Nöfn gatanna verða; Eistlandsbryggja, Lettlandsbryggja og Litháenbryggja. Verða þær á nýrri landfyllingu sem unnið er að í dag liggur út frá athafnarsvæðinu þar sem sementstankarnir tveir eru í dag.

Pawel segir að tillagan um nöfn gatanna hafi verið samþykkt einróma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert