Félagið hafi ekki sent ályktun á ráðuneytið

Flensborgarskóli í Hafnarfirði
Flensborgarskóli í Hafnarfirði mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formaður kennarafélags Flensborgarskólans segir félagið ekki hafa sent ályktun til menntamálaráðuneytisins þar sem kennarar lýsa yfir áhyggjum af inngripi stjórnenda skólans.

Ályktunin átti einungis að fara á stjórn skólans og kveðst formaður ekki vita hvernig hún endaði á borði ráðuneytisins. 

Fyrr í dag greindi mbl.is frá því að mikil óánægja væri meðal nemenda Flensborgarskólans með skipun Erlu Sigríðar Ragnarsdóttur í embætti skólameistara en hún hefur sinnt starfinu sem settur skólameistari.

Nemendafélag skólans sendi bréf, sem mbl.is hefur undir höndum, til menntamálaráðuneytisins þar sem þau segja nemendur upplifa vanlíðan vegna skólameistarans í skólanum.

Í fréttinni segir einnig að kennarafélagið hafi sent ályktun til menntamálaráðuneytisins og stjórnenda Flensborgar þar sem vinnubrögð skólastjóra voru gagnrýnd. Anný Gréta Þorgeirsdóttir formaður félagsins segir það þó ekki vera rétt.

Sjálfstæði mikilvægt

Ályktunin var sett fram á fundi kennarafélagsins þann 1. desember á síðasta ári og var síðar send á stjórnendur skólans 5. desember. Þar kemur fram að félagið hafi áhyggjur af inngripi stjórnenda í námsmat eftir að námsmat hefur verið samþykkt og birt. Vert sé að hafa í huga að sjálfstæði kennara í starfi sé mikilvægt sem og traust á að þeir hafi þekkingu til að meta þá áfanga sem þeir kenna. 

Þá lýstu kennarar einnig yfir áhyggjum varðandi inngrip og breytingar frá stjórnendum í ýmis verkefni.

Veit ekki hver sendi ályktunina

Í kjölfar þess að ályktunin var send var fundur haldinn með stjórnendum skólans og segir Anný félagið hafa verið sátt við þá niðurstöðu. Var málinu þá lokið af þeirra hálfu.

Anný kveðst ekki vita hvernig ályktunin endaði á borði ráðuneytisins en það var ekki fyrr en skilaboð bárust til stjórn kennarafélagsins frá ráðuneytinu í mars, um að erindi þeirra hafi verið móttekið, að hún komst að því að ályktunin hefði verið send áfram. Þar var þeim jafnframt þakkað fyrir ábendinguna.

Stjórn félagsins sendi þá bréf til ráðuneytisins og árréttaði að bréfið hefði ekki komið frá þeim.

Þá segir hún kennara hafa verið slegna yfir fréttum af mikilli óánægju í garð nýs skólameistara og að þær hafi komið mikið á óvart.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert