Gas olli líklega landrisinu 2020

Aðeins lítið brot af kvikunni sem er djúpt undir Fagradalsfjalli …
Aðeins lítið brot af kvikunni sem er djúpt undir Fagradalsfjalli kom upp í gosinu í Geldingadölum 2021 mbl.is/Árni Sæberg

Landris sem varð við Svartsengi í janúar, mars og maí 2020 stafaði líklega af háþrýstu gasi (koldíoxíði) sem tróðst inn í vatnsleiðandi lag á um fjögurra kílómetra dýpi undir jarðhitakerfinu. Þetta endurtók sig undir miðju jarðhitakerfinu í Krýsuvík í ágúst 2020. Gasþrýstingurinn var nægur í hvert skipti til að valda landrisi. Svo dreifðist gasið eftir vatnsleiðandi laginu sem leiddi til þess að landið seig aftur.

Þessir atburðir voru fyrirboðar eldgossins sem hófst í Fagradalsfjalli 19. mars 2021. Auk þess sem land reis og seig á víxl á háhitasvæðunum birtust þeir einnig í mikilli jarðskjálftavirkni við Svartsengi og í breytingum í þyngdarkrafti jarðar samhliða landrisinu og landsiginu.

Þetta kemur fram í fræðigrein sem birtist 2. maí í einu virtasta og áhrifamesta jarðvísindatímariti heimsins, Nature Geoscience. Ólafur G. Flóvenz jarðeðlisfræðingur er leiðandi höfundur greinarinnar. Ritun hennar hefur verið aðalviðfangsefni hans síðastliðin tvö ár frá því að hann lét af störfum sem forstjóri ÍSOR. Að baki liggur tveggja ára rannsóknavinnu sérfræðinga ÍSOR og GFZ, sem er helsta jarðvísindastofnun Þýskalands.

mbl.is

Nákvæmar mælingar

Þrenns konar mælingar á Reykjanesskaga árið 2020 liggja til grundvallar rannsókninni. Þær eru InSAR-mælingar úr Sentinel-1 gervitungli Geimvísindastofnunar Evrópu sem sýndu þrjár lotur landriss og landsigs í Svartsengi og fjórðu lotuna í Krýsuvík.

Einnig nákvæmar jarðskjálftamælingar með hefðbundnum jarðskjálftamælum og ljósleiðara fjarskiptafyrirtækisins Mílu. Auk þess nákvæmar mælingar á breytingum í þyngdarkrafti jarðar sem endurspegla massa þess efnis sem kann að hafa troðist inn í jarðlögin og orsakað landrisið.

Ólafur sagði í samtali við Morgunblaðið að beitt hefði verið því sem kallast „póró-elastískar“ aðferðir til að meta rúmmál efnisins sem barst inn í rætur jarðhitakerfanna í Svartsengi. Niðurstöður þyngdarmælinga voru notaðar til að reikna eðlismassa efnisins sem olli landrisinu. Hann var minni en eðlismassi kalds vatns og mun minni en eðlismassi kviku.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert