Harður tónn ráðherra ekki í takt við sátt

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Sigurður Bogi

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, segir ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra um að Reykjavíkurborg fái ekki að byggja í Skerjafirði fyrr en nýr flugvöllur er tilbúinn annars staðar vera stílbrot.

„Þessi viðbrögð núna á þessum tíma finnst mér vera ákveðið stílbrot, og þó nokkuð mikið, vegna þess að við höfum unnið bæði flugvallarmál og önnur samgöngumál í þó nokkuð mikilli sátt, ráðuneytið og borgin, að undanförnu. Mér finnst þessi harði tónn ekki í takt við þá sátt,“ segir Pawel.

Pawel bætir því við að oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík hafi lýst því að hann væri hlynntur því að Reykjavíkurflugvöllur myndi fara og veltir því fyrir sér hvað honum finnst um þessi ummæli formanns flokksins.

Verulegt inngrip

Áður hafði Sigurður Ingi greint frá því í samtali við Dagmál að Isavia fari með reksturinn á Reykjavíkurflugvelli og meti þar flugöryggi. Ekki megi taka neina áhættu þegar komi að öryggismálum. 

Pawel segir viðbrögð Sigurðar Inga verulegt inngrip inn í skipulagsvald sveitarfélagsins, þar sem landið hafi, bæði í aðal- og deiliskipulagi, verið skipulagt sem íbúðabyggð samkvæmt níu ára gömlum samningi þess efnis.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég vil taka skýrt fram að ef og þegar við í Viðreisn verðum aftur í meirihluta, sem við að sjálfsögðu vonumst eftir, munum við tala skýrt fyrir því að borgin taki til fullra varna í þessu máli vegna þess að við eigum öll í sveitarstjórnum að vera sammála því að skipulag borgarinnar eigi að vera ákveðið í ráðhúsinu en ekki í einhverjum öðrum húsum,“ bætir Pawel við.

Málatilbúnaður ríkisins ekki batnað

Hann tekur fram að í samningnum sem var undirritaður á milli borgarinnar og ríkisins árið 2013 komi fram að norðaustur/suðvesturbraut flugvallarins skuli lokað og þar skuli rísa byggð.  

„Borgin hefur einu sinni áður þurft að láta reyna á þann samning fyrir dómstóli og haft í því máli sigur og ég sé ekki að málatilbúnaður ríkisins hafi batnað frá þeim tíma.“

Frambjóðendur Viðreisnar í Reykjavík: Frá vinstri: Þórdís Jóna Sigurðardóttir. Þórdís …
Frambjóðendur Viðreisnar í Reykjavík: Frá vinstri: Þórdís Jóna Sigurðardóttir. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Pawel Bartoszek. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurður út í samning á milli ríkis og borgar sem var gerður árið 2019 um að flugvöllurinn fari ekki á meðan verið er að kanna aðra kosti, segir hann ekkert í honum kveða á um að flugvöllurinn verði í óbreyttri mynd.

„Það er ekki sá skilningur sem ég legg í samninginn að það skuli ekki byggt neitt upp fyrr en árið 2025 enda hefði það komið fram í samningnum ef það hefði verið svo,“ segir Pawel.

Hann bendir á rannsókn á flugtæknihlið málsins af hálfu Hollensku loft- og geimferðastofnunarinnar þar sem skýrt sé kveðið á um að uppbyggingin í Nýja Skerjafirði og sú áhætta sem af henni myndast sé viðráðanleg og eigi ekki að koma í veg fyrir uppbyggingu svæðisins.

„Þannig að ég tel ekki að ríkið hafi mjög sterkt mál í höndunum þar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert