Saka lögregluna á Ísafirði um ofbeldi og fordóma

Pierre-Vladimir Joliot og Naif Tarabay ásamt guðsyni þeirra Astor Mattson.
Pierre-Vladimir Joliot og Naif Tarabay ásamt guðsyni þeirra Astor Mattson. Ljósmynd/Aðsend

Heimsókn hjóna til Íslands, ásamt guðsyni þeirra, breyttist skyndilega í martröð þegar þau voru handtekin með valdi á Ísafirði á þriðjudag, grunuð um mansal. Annar mannanna var vistaður í köldum fangaklefa í sjö klukkutíma á meðan hinn var yfirheyrður af lögreglunni.

Þeim var að sögn báðum neitað um símtal og lögmaður var ekki viðstaddur yfirheyrsluna. Eftir að lögregla áttaði sig á að um mistök var að ræða var mönnunum sleppt úr haldi og þeir beðnir afsökunar á handtökunni.

Mennirnir eru afar skelkaðir eftir atburðarásina og eiga erfitt með að festa svefn. Þá grunaði ekki að slíkum aðferðum væri beitt á Íslandi og telja þeir mögulegt að framferði lögreglunnar og grunurinn um mansal hafi byggt á kynþáttafordómum.

Mennirnir ætla að leita réttar síns og ætla sér að kæra íslensk yfirvöld, m.a. fyrir brot á mannréttindum. Þeir hafa þegar sett sig í samband við íslenskan lögmann sem mun funda með þeim á morgun. Þá segja þeir franska sendiráðið einnig vera með málið á sinni könnu.

Buðu guðsyninum með

Þetta var í sjötta skipti sem hjónin Pierre-Vladimir Joliot og Naif Tarabay koma í heimsókn til Íslands. Pierre-Vladimir kemur frá Frakklandi en eiginmaður hans Naif kemur frá Líbanon. Þeir eru búsettir í Póllandi en hafa áður starfað í Úkraínu og Rússlandi.

Pierre-Vladimir lýsti heimsókninni og atburðarásinni fyrir blaðamanni, en hann starfar sem yfirmaður hjá dótturfyrirtæki franska fjármálarisans Société Générale í Póllandi. 

Fyrir heimsóknina voru mennirnir fullir eftirvæntingar enda Ísland í miklu dálæti hjá þeim báðum, allt frá því að þeir komu hingað í fyrsta skiptið árið 2010. Þeir ákváðu að bjóða 14 ára guðsyni sínum, Astor Mattson, með í ferðina sem er elsta barn sænskra vinahjóna þeirra.

Að sögn Pierre-Vladimir þótti þeim kærkomið að þeir myndu taka strákinn með enda eiga vinahjónin tvö önnur börn og því ekki hlaupið að því að fara með alla fjölskylduna í svona ferðalög.

Öskruðu á mennina

Þegar mennirnir ásamt stráknum voru á leið til Ísafjarðar í gær um hádegisbil, eftir að hafa verið að ferðast um Vestfirðina, mætti þeim lögreglubíll. Pierre-Vladimir segir að þeir hafi í fyrstu gefið honum lítinn gaum. Það var ekki fyrr en hann sneri við og kveikti á bláu ljósunum, og annar lögreglubíll kom æðandi á móti, að mennirnir áttuðu sig á að líklega væri verið að stöðva bílinn þeirra – sem svo reyndist raunin. 

Að sögn Pierre-Vladimir voru lögregluþjónarnir óvinveittir og öskruðu á hjónin og heimtuðu að þau kæmu út úr bifreiðinni.

Þegar mennirnir stigu út voru þeir samstundis handteknir af lögreglunni, sem beitti mikilli hörku að sögn Pierre-Vladimir, áður en þeir voru upplýstir um að þeir væru grunaðir um aðild að mansali. Þeir voru í kjölfarið færðir í sitt hvorn fangaklefann.

Pierre-Vladimir segir lögregluna hafa verið með meiri ofbeldistilburði gagnvart Naif, sem hann telur mögulega tengjast því að eiginmaður hans er arabískur og dekkri á hörund. Var hann yfirheyrður af lögreglu á meðan Pierre-Vladimir var látinn dúsa í köldum fangaklefa í sjö klukkustundir.

Bjóst ekki við þessu á Íslandi

„Ég hefði búist við þessu í Rússlandi, en ekki hérna á Íslandi,“ segir Pierre-Vladimir skelkaður í samtali við mbl.is. Hann lýsir þessu sem súrrealískri reynslu og kveðst aldrei hafa átt von á að þurfa að upplifa slíka atburðarás.

Segir hann ekkert verra en að vera grunaður um mansal.

„Hausinn minn var að springa,“ segir Pierre-Vladimir sem kveðst hafa upplifað allan tilfinningaskalann á meðan hann var látinn dúsa í fangaklefanum, einangraður. Segist hann varla geta ímyndað sér hvernig fólki líður sem er í einangrunarklefa í lengri tíma.

„Ég brotnaði niður og grét og fór síðan að hlæja. Þetta var tilfinningarússíbani. Ég hugsaði svo um allar heimildarmyndirnar sem ég er búin að horfa á, um fólk sem sætir einangrun í lengri tíma. Ég bjóst þó aldrei við að þetta væri svona. Ég var í sjö klukkustundir og var að verða geðveikur. Þetta var hræðilegt.“

Móðirin að farast úr áhyggjum

Á meðan þetta gekk á, á guðsonurinn að hafa verið í í umsjá fulltrúa frá Barna- og fjölskyldustofu.

Loks var hringt í móður hans um klukkan tvö, sem skildi hvorki upp né niður í því sem hafði átt sér stað. Pierre-Vladimir segir yfirvöld hafa logið að móðurinni og sagt við hana að allt væri í góðu lagi.

Hún gat þó ekki hringt til baka og var því að farast úr áhyggjum á meðan mennirnir voru enn í haldi.

Aðstoðaði flóttamenn frá Palestínu

Um klukkan sjö um kvöldið var mönnunum loksins sleppt og þeim tilkynnt að um mistök hefði verið að ræða. Þeir hefðu einfaldlega verið á röngum stað á röngum tíma.

Að sögn Pierre-Vladimir kom þá í ljós að misskilningur hafði orðið vegna atviks þegar mennirnir sóttu guðson sinn í Leifsstöð, daginn eftir að þeir lentu hér á landi.

Pierre-Vladimir hafði þá beðið í bílnum á meðan Naif stökk inn til að taka á móti stráknum. Eftir að hafa tekið á móti guðsyninum rakst hann á tvo drengi í flugstöðinni frá Palestínu, sem töluðu einungis arabísku. Naif, sem talar einnig arabísku, ræddi við drengina og komst að því að þeir væru flóttamenn og líklegast ekki með nein skjöl eða pappíra frá heimalandinu.

Naif taldi ráðlegast að aðstoða þá og eftir að hafa varið um klukkutíma í að finna lögreglumenn, eða annan fulltrúa sem hægt væri að ráðfæra sig við í Leifstöð vegna móttöku flóttamanna, tók öryggisvörður á flugvellinum við málinu og fullvissaði Naif um að þetta væri komið í réttan farveg. 

Naif lét palestínsku drengina hafa mat, sem hann og Pierre-Vladimir höfðu haft meðferðis, áður en hann fór út ásamt guðsyninum.

Að sögn Pierre-Vladimir á þetta að hafa orsakað þennan stórkostlega misskilning sem olli því að mennirnir voru grunaðir um mansal og handteknir nokkrum dögum síðar.

Handtóku arabískan mann sem talaði arabísku

„Í venjulegu landi hefði lögreglan beðið okkur um að bera vitni og beðið okkur fallega um að koma á lögreglustöðina. Þess í stað ákváðu þeir að handtaka arabískan mann sem talaði arabísku,“ segir Pierre-Vladimir, sem telur að kynþáttafordómar hafi spilað inn í ákvörðun lögreglu og þessa atburðarás.

Mennirnir hafa nú sett sig í samband við franska og sænska sendiráðið, og íslenskan lögmann sem mun funda með þeim á morgun.

Naif er með áverkavottorð frá Heilbrigðisstofun Vestfjarða á Patreksfirði, sem segir m.a. að hann hafi verið með áverka eftir handjárnin.

Þeir stefna á að kæra yfirvöld vegna handtökunnar og ofbeldisins sem henni mun hafa fylgt.

Lögreglan á Vestfjörðum vildi ekki tjá sig um málið að sinni þegar þess var leitað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert