„Ég vil og ég ætla að klára þetta mál“

Katrín, Ásmundur og Dagur við undirritunina í Laugardal í dag.
Katrín, Ásmundur og Dagur við undirritunina í Laugardal í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Borgarstjóri og mennta- og barnamálaráðherra vísa á bug efasemdaröddum um að Þjóðarhöllin muni rísa. Ráðherrann sér fyrir sér að skóflu verði stungið í jörð á nýju ári og borgarstjóri segir tímasetningu undirritunar viljayfirlýsingar einfaldlega tilviljun.

Einhverjir netverjar settu í dag fram efasemdir um að höllin, sem verður helguð innanhúsíþróttum, muni rísa. Því er ekki úr vegi að spyrja borgarstjórann, Dag B. Eggertsson, beint út um það.

Bara svo við höfum það alveg á hreinu: Þetta er að fara að gerast?

„Já,“ segir Dagur.

Er eitthvað í hendi með þetta?

„Það liggur fyrir að við erum hér að ná samkomulagi um það að við ætlum í þetta mannvirki, sameiginlega ríkið og borgin og báðir aðilar búnir að samþykkja það,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Núverandi aðstaða fallin á tíma

Viljayfirlýsingu undirrituðu þeir Dagur í dag ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Í henni kemur fram að stefnt sé að því að ljúka framkvæmdum við höllina árið 2025.

Dagur segir að vissulega sé tímaáætlunin mjög brött. Spurður hvers vegna það sé segir Dagur:

„Það er vegna þess að það er sameiginlegur vilji til þess. Núverandi aðstaða er fallin á tíma gagnvart alþjóðlegum kröfum og íþróttahús í Laugardal raðaðist efst í forgangsröðun íþróttamannvirkja hjá Reykjavíkurborg. Þegar við skoðuðum þarfir fyrir íþróttamannvirki í allri borginni þá var þetta brýnasta verkefnið. Við viljum reisa það eins hratt og nokkur er kostur.“

Horfa á málið eins og íþróttafólk

Ásmundur Einar segir allt þurfa að ganga upp svo höllin nái að rísa á þessum stutta tíma:

„Við erum nú einu sinni að reisa íþróttamannvirki og íþróttamenn setja alltaf ýtrustu kröfur og ýtrustu væntingar. Það er það sem ég er að gera hér og það er þannig sem ég lít á þetta mál: Ég vil og ég ætla að klára þetta mál.“

Höllin verður sunnan við Laugardalshöll og mun kostnaðurinn við verkefnið skiptast á milli borgar og ríkis.

„Báðir aðilar eru búnir að skuldbinda sig til þess að setja þetta inn í sínar langtímaáætlanir þannig að þetta sé fjármagnað og kostnaðarskiptingin er leyst þannig að borgin greiðir þann kostnað sem fellur til vegna aðstöðu, vegna félagana í dalnum – Þróttar og Ármanns  sem eru með mjög stórar íþróttadeildir barna og unglinga – og skólanna en ríkið tekur þann kostnað sem fellur til vegna alþjóðlegra krafna um þjóðarleikvanga og landsliðanna,“ segir Dagur.

7,9 til 9 milljarðar miðað við frumkostnaðarmat

Hversu mikið mun þetta kosta?

„Það liggur fyrir frumkostnaðarmat sem er á bilinu 7,9 til 9 milljarðar. Það er ekki mjög gamalt en við vitum að vegna stríðsins í Úkraínu og sveiflna á alls konar hrávörumörkuðum gæti þurft að setjast yfir það aftur. Eins ef þarfirnar breytast eitthvað við lokayfirferð á þeim. Það þarf að hafa ákveðinn fyrirvara á þessum tölum en þær eru vonandi ekki fjarri lagi,“ segir Dagur.  

Hlutfall skiptingar kostnaðar á eftir að koma fyllilega í ljós.

Ætla ekki að þvæla málinu í hringi

Ásmundur ítrekar það að hann ætli sér að „klára málið“.

„Við ætlum ekki að þvæla því um í hringi og þess vegna erum við hér í dag, við erum að koma málinu á þann stað að ég sé fyrir mér að það geti klárast.“

Verðbólga mældist 7,2% í aprílmánuði og hefur hún ekki mælst jafn há síðan árið 2010. Lilja Alfreðsdóttir,  menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, sagði í svari við fyrirspurn mbl.is í vikunni að op­in­ber fjár­mál þyrftu að vera aðhalds­söm næstu 18 mánuði, í það minnsta.

Hvernig rímar þessi uppbygging við aðhald í ríkisfjármálum sem talað hefur verið um að ráðast þurfi í vegna verðbólgunnar?

„Það sem við erum að tala um hér eru framkvæmdaverkefni, uppbyggingarverkefni. Þetta er ekki beinn rekstrarkostnaður á hverju ári. Það er svigrúm í ríkisfjármálaáætluninni til framkvæmda og þetta er unnið í fullri sátt á milli stjórnarflokkanna þannig að við værum ekki hér í dag nema hugur fylgdi máli í því,“ segir Ásmundur um það.

Hefði viljað klára málið fyrir ári síðan

Einungis vika er í sveitastjórnarkosningar og því er við hæfi að spyrja Dag um tímasetningu undirritunar viljayfirlýsingarinnar.

„Ég held að það sé í grunninn tilviljun. Ég hefði viljað að við hefðum klárað þetta fyrir alla vega ári síðan. Þá voru hins vegar að koma þingkosningar, það eru alltaf einhverjar kosningar og ég held að það sé fyrirmestu að þetta sé skýrt. Ég var búinn að segja að af hálfu borgarinnar hefðum við ekki getað beðið mikið lengur vegna þess að við vorum búin að lofa íbúum Laugardals skýrum svörum á þessu vori,“ segir Dagur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert