Íslenskt koníak-teiti á toppi Grænlandsjökuls

Myndir af hópnum sem fór 2019 á göngu.
Myndir af hópnum sem fór 2019 á göngu. Af Facebook síðu hópsins.

Þrír hópar Íslendinga þvera nú Grænlandsjökul og tveir hópanna áætla að hittast nálægt toppi jökulsins og halda lítið teiti í bítandi frostinu. Nóg ef af harðfisk og smjöri í för og mikið er um stórafmæli á jöklinum.  

Vel hefur gengið í leiðangri hóps Íslendinga frá Arctic Hiking yfir Grænlandsjökul samkvæmt Kristni Garðarssyni, framkvæmdarstjóra fyrirtækisins.

Ágúst Jóel Magnússon, sem ferðast með hópnum, verður sextugur annað kvöld og býst Kristinn við því að hópurinn fagni þeim áfanga. „Ef ég þekki þá rétt þá verður skálað í koníak og þau fái sér súkkulaði til að fagna,“ segir Kristinn í samtali við mbl.is. En annar aðili hópsins varð fimmtugur fyrr í ferðinni.

Tjaldað í snjónum.
Tjaldað í snjónum. Af Facebook síðu hópsins.

Kristinn er í daglegum samskiptum við hópinn í gegnum gervihnattarsíma þar sem hann kemur upplýsingum til skila til hópsins. Hann fær stutta pistla frá hópnum sem hann birtir á Facebook-hóp fyrir þá sem vilja fylgjast með ferðalöngunum sem og hann segir þeim hvernig veðurspáin sé framundan hjá þeim.

Vissu af hinum hópnum

Kristinn segir að ekkert hafi komið upp hjá hópum sem sé nú að nálgast topp jökulsins. Förinni sé hinsvegar heitið að DYE2 stöðinni sem staðsett er í nokkurra daga göngu frá toppnum og svo muni hópurinn halda göngunni áfram áleiðis yfir jökulinn.

Hópurinn lagði af stað frá austurhluta Grænlands og ganga þau þvert yfir jökulinn til vesturs. Hinsvegar er annar hópur Íslendinga sem mætir þeim á leiðinni, en sá hópur gengur frá vestri til austurs og reiknar Kristinn með að hóparnir hittist á leiðinni og fagni því.

Ferðalög hópanna tveggja.
Ferðalög hópanna tveggja. Af Facebook síðu hópsins.

„Þau vissu af hvoru öðru og höfðu verið í sambandi áður en lagt var af stað. Ég veit að annar hópurinn er með gjafir til að fagna hittingnum uppi á Grænlandsjökli. Það verður líklega skálað,“ segir Kristinn.

Hópurinn sem gengur frá vestri til austurs er undir forystu Vilborgar Örnu Gissurardóttur og Brynhildar Ólafsdóttur, en í þeim hópi Kristinn er í sambandi við er Einar Torfi Finnsson í framabroddi.

Leitað að hitaeiningum í Bónus

Hann segir að hópurinn hittist alla þriðjudaga á veturna og fari á gönguskíði. Einar Torfi skipuleggi svo á hverju ári nokkurra daga ferð fyrir hópinn, en undanfarin ár hafi þau gengið á Skjaldbreið, Eiríksjökul og Mýrdallsjökul. Í ár hafi hinsvegar komið upp sú hugmynd að fara yfir Grænlandsjökul.

Kalt er á Grænlandsjökli oft undir -20 gráðum.
Kalt er á Grænlandsjökli oft undir -20 gráðum. Af facebook síðu hópsins.

„Hópurinn er hress og skemmtilegur og ég reikna með að þau skemmti sér vel. Það hefur ekkert komið upp hingað til og allt gengið mjög vel,“ segir Kristinn. Aðspurður hvort hópurinn sé ekki hræddur um að hitta á hvítabjörn á leið sinni segir Kristinn: „Einar Torfi er að fara þessa ferð í fimmta skiptið og hefur farið þarna yfir þrjátíu ára tímabil og aldrei hefur hann séð ísbjörn. Í eitthvað skiptið fundu þau fótspor. Hópurinn er samt með byssu með sér sem þau sofa með hjá sér til þess að gæta alls öryggis.“

 „Þetta tekur þrjár til fjórar vikur að ganga. Þau eru með mat með sér og nóg af harðfisk, smjöri, súkkulaði og kexi. Það var í raun farið í Bónus og leitað að því hvar væri mestar hitaeiningar að finna til þess að takmarka orkutap, kuldinn er svo mikill,“ segir Kristinn um hvernig vistum sé hagað hjá hópnum.

Grænlandsjökull. Myndin er ekki af hópnum.
Grænlandsjökull. Myndin er ekki af hópnum. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina