Standandi lófatak þingmanna sögulegt

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu ávarpaði þingið og íslensku þjóðina á …
Volodimír Selenskí forseti Úkraínu ávarpaði þingið og íslensku þjóðina á úkraínsku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birgir Ármannsson forseti Alþingis segir ávarp Volodimírs Selenskís forseta Úkraínu fyrr í dag hafa markað sögulega stund á Alþingi. Þá mun þetta jafnframt hafa verið í fyrsta sinn sem þingmenn rísa úr sætum sínum í þingsal og klappa fyrir ræðumanni, að því er hann best veit.

„Þetta var söguleg stund og mér fannst þetta áhrifamikið að hlusta á forseta Úkraínu tala við þessar aðstæður. Ég held að það hafi verið tilfinning allra í salnum að þetta hafi verið söguleg og áhrifarík stund.“

Hann segir þetta hafa verið afar sérstakan viðburð sem hafi lotið sínum eigin lögmálum, því hafi ýmsar hefðir ekki verið virtar. Mun þetta til að mynda vera í fyrsta sinn sem erlendur þjóðarleiðtogi ávarpar þingið og fjarfundarbúnaður er nýttur í þingsal. Þá þykir einnig óvanalegt að ræður fari fram á erlendri tungu.

Óvenjulegir tímar

Að sögn Birgis varð hugmyndin að ávarpinu til í samskiptum milli Íslands og Úkraínu fyrir nokkrum vikum. 

„Við höfum ekki hér á Alþingi gert svona áður en nú eru uppi mjög óvenjulegir tímar og þegar við urðum þess áskynja að þjóðþingin í kringum okkur væru með einum eða öðrum hætti að hlýða á ávörp frá forseta Úkraínu þá fannst okkur ekki annað við hæfi heldur en að skipuleggja af okkar hálfu líka og náðum að gera það með prýðilegum hætti sýnist mér.“

Kom þetta til af okkar frumkvæði eða Úkraínumanna?

„Það má segja að við höfum kannski látið vita að þegar tíminn passaði þá værum við tilbúin að skipuleggja okkur þannig að við gætum komið þessu í kring.“

Einstakt tilfelli

Spurður hvort ávarpið í dag marki fyrsta skrefið í að leyfa almennt fleiri erlendum þjóðarleiðtogum að ávarpa þingið, segir Birgir þetta hafa verið einstakt tilfelli og að almennt sé ekki hefð fyrir slíku.

„Þetta er auðvitað ekki þingfundur heldur sérstakur viðburður á vegum þingsins en það má segja að við urðum að bregðast þarna við dálítið óvenjulegum kringumstæðum. Við reyndum að gera það á þann hátt sem við gátum gert sem best.“

mbl.is