„Heilmikið verk að vinna“

Mjöll Matthíasdóttir segir að hávært ákall sé í kennarastéttinni um …
Mjöll Matthíasdóttir segir að hávært ákall sé í kennarastéttinni um bætt launakjör. Ljósmynd/Aðsend

Mjöll Matthíasdóttir, nýkjörinn formaður Félags grunnskólakennara, segir heilmikið verk að vinna hvað varðar kjaramál félagsmanna. Hún segist hafa svarað ákalli félagsmanna um breytingar, í aðdraganda kosninga.

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir sitjandi formaður var felld í formannskosningunum og varð ljóst í dag að Mjöll tæki við. 

„Vonum að menn geti sett þetta til hliðar“

Ásakanir um einelti fyrrum formanns í garð starfsmanns félagsins hafa verið til umfjöllunar og eftirlitsskýrslu þess efnis lekið í aðdraganda kosninga.

Bindurðu vonir um gott samstarf á skrifstofunni eftir kjör þitt?

„Við vonum að menn seti sett þetta til hliðar og haldið áfram veginn. Það er mikilvægt að það sé gott samstarf innan Kennarasambandsins,“ segir hún. Félag grunnskólakennara á aðild að sambandinu auk fleiri félaga innan kennarastéttarinnar. 

Hávær krafa um bætt kjör

„Ég veit að það er heilmikið verk að vinna. Það er náttúrulega bara hávær krafa um bætt kjör innan stéttarinnar og þess háttar og það er líka mikið verk að vinna að fá fleiri félagsmenn að starfi félagsins, segir hún og nefnir því til stuðnings kjörsókn í formannskosningunum.

„Við náðum ekki 50% þátttöku í kosningunum sem er ekki nógu gott,“ segir hún en kjörsókn nam 46,18%. 

Kjarasamningar grunnskólakennara losna í lok mars á næsta ári. Nefnir Mjöll að nokkur ár séu liðin síðan lífeyriskjörum kennara var breytt og þá hafi ætlunin verið að jafna kjör þeirra við almennan markað, en þetta hafi ekki enn gengið eftir og tíminn sé nú á þrotum.

Ný stjórn í félaginu verður kjörin í lok maí og verða stjórnarskipti á aðalfundi í haust að sögn Mjallar. „Ég vona að öflugur hópur stígi fram til að vinna með mér,“ segir hún í lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert