Ummæli Kristrúnar minni á Ágústs Ólafs

Kristrún segir Bjarna ráða rosalega miklu.
Kristrún segir Bjarna ráða rosalega miklu. Samsett mynd

Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, lét þau ummæli falla um Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að hún hefði enga sjálfstæða skoðun á efnahagsmálum og fjármálum - hún fengi bara punkta frá Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra, í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark. 

„Mér finnst frústrerandi að það sé stöðugt verið að senda þessi skilaboð að fólk sem sé félagslega þenkjandi það bara hafi ekkert input í efnahagsmálaumræðuna og mér finnst hún vera þannig. 

Hún tekur bara punkta frá Bjarna Benediktssyni sem er bara fínt ef þú ert í Sjálfstæðisflokknum en hún hefur enga sjálfstæða skoðun á efnahagsmálum og fjármálum,“ sagði Kristrún. 

Ákveðin uppgjöf

Kristrún lét þessi orð falla í umræðum við þáttastjórnendur um hvort Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn hafi afsalað sér völdum til Sjálfstæðisflokksins með því að veita honum fjármála- og efnahagsráðuneytið. 

„Það er ekkert sem bendir til þess að hún sé að hafa neina skoðun á því hvernig ríkissjóður er rekinn miðað við pólitíkina sem endurspeglast þarna. Mér finnst það vera ákveðin uppgjöf,“ sagði Kristrún ennfremur um ráðherrann.

Bjarni ráði rosalega miklu

„Það er rosalega margt í kerfinu okkar sem tók á sig högg eftir hrun: heilbrigðiskerfið, innviðir.  Það er verið að tala um 400 milljarða uppsafnaða þörf bara í vegaframkvæmdum. Á einhverjum tímapunkti kemur líka að skuldadögum í þessu og það þarf að eiga sér stað ákveðin leiðrétting,“ segir Kristrún og bætir við:  

„Mér finnst það ekki endurspeglast í fjármálaáætlun og að því leytinu til segi ég bara: Hann ræður - Bjarni ræður rosalega miklu.“

„Fyrst Ágúst Ólafur og nú Kristrún“

Ummælin hafa vakið reiði meðal flokksfélaga Katrínar. Meðal þeirra sem gagnrýna þau eru Líf Magneudóttir borgarfulltrúi og Anna Lísa Björnsdóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Vinstri grænna.

Anna Lísa tengir ummælin við þau sem Ágúst Ólafur Ágústsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, lét falla árið 2020 um að það væri í raun Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sem stjórnaði landinu, ekki Katrín Jakobsdóttir.

Ragna Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður Ungra jafnaðarmanna, gagnrýndi ummælin á sínum tíma.

Hún taldi ekki ástæðu til að tjá sig um ummæli Kristrúnar þegar mbl.is leitaði viðbragða.

mbl.is

Bloggað um fréttina