80% sjá leiðtoga sem miðaldra hvítan karl

Lucie Samcová – Hall Allen, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, Aud …
Lucie Samcová – Hall Allen, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, Aud Lise Norheim, sendiherra Noregs; Lilja Sigurðardóttir, rithöfundur og Hanna Birna Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Reykjavik Global Forum í Bíó Paradís í dag að ræða um veruleika kvenna í opinberu lífi. Ljósmynd/Óttar Geirsson

„Konur eru enn í miklum minnihluta í valdastöðum, ekki bara hér heldur í alþjóðlegu samhengi,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir stjórnarformaður Reykjavik Global Forum og ráðgjafi UN Women í New York, en hún sat málþing í dag um um veruleika kvenna í opinberu lífi sem haldið var í Bíó Paradís í tengslum við Reykjavik Feminist Film Festival ásamt Aud Lise Norheim, sendiherra Noregs og Lilju Sigurðardóttur rithöfundi til að spjalla um þessi mál. Fundinum stýrði Lucie Samcová – Hall Allen, sendiherra Íslands í Evrópusambandinu.

Aðrar hindranir

„Allar rannsóknir sýna að þær hindranir sem konur mæta eru aðrar og stærri en þær hindranir sem mæta körlum. Það liggur ekki bara í þeirri staðreynd að þær eru færri í forystuhlutverkum, heldur ekki síður í því að viðhorfið til leiðtoga er enn mjög hefðbundið og t.d um 80% fólks segjast sjá fyrir sér fyrir sér miðaldra hvítan karl þegar það er beðið um að lýsa leiðtoga. Það virðist þannig vera að almenningur eigi erfiðara með að gefa konum það frelsi og svigrúm til að móta leiðtogahlutverkið líkt og við höfum gefið körlum í svo langan tíma.“

Tekur lengri tíma að breyta viðhorfum

Hanna Birna segir að Ísland sé mjög framarlega í jafnréttismálum þegar komi að tölum og fjölda kvenna í valdastöðum. „En auðvitað tekur miklu lengi tíma að breyta viðhorfunum, menningunni og því að konur sem leiðtogar séu viðurkenndar með sama hætti og karlar. Umhverfið er ennþá litað af því að stjórnunarstörf hafa svo lengi fremur verið í höndum karla. Síðan sýna rannsóknir að konur í stjórnunarstörfum eru þrisvar sinnum líklegri til að hætta fyrr en karlar, sem segir okkur að menningin og umhverfið er einhvern veginn síður hagfellt þeim en körlum í sömu störfum.“

Þarf að fjölga konum

Hún segir að á fundinum hafi verið samhljómur um að mikilvægi þess að fjölga konum í stöðum leiðtoga. „Ef unga fólkið okkar sér ekki konur til jafns við karla í valdastöðum þá eru það ekki bara ungu konurnar sem skortir fyrirmyndir, heldur glötum við þeim verðmætum sem felast í fjölbreytni. Fyrsta skrefið er því að viðurkenna að sem jöfnust kynjahlutföll skipta máli þegar kemur að valdastöðum og svo er hægt að velta fyrir sér ýmsum leiðum. Þurfum við að leita sérstakra leiða til að fjölga konum í leiðtogastörfum, eða gerist það af sjálfu sér? Gerum við sömu kröfur til kvenna í valdastöðum og við gerum til karla? Fá þær sama svigrúm og karlar til að breyta vinnubrögðum, hefðum og hugmyndum eða getur verið að það þurfi að gera róttækari breytingar á umhverfi t.d. stjórnmála til að konur og raddir þeirra verði meira mótandi afl?“

Hvergi fullkomið lagalegt jafnrétti

„Svo ræddum við það að lagaumgjörð er hvergi í heiminum kynhlutlaus. þá staðreynd að Það er ekkert land í heiminum með lagaramma sem byggir á fullkomnu jafnrétti kynjanna. Sums staðar er það mjög áberandi og áhrifamikill munur, en í löndum eins og á Íslandi lýtur það meira að einstakri löggjöf þar sem við getum gert betur. Við erum komin langt, en samkvæmt Sameinuðu þjóðunum er ennþá ekkert ríki með fullkomið lagalegt jafnrétti. Þessu þarf að breyta.“

Ein kona er ekki nóg

Hanna Birna segir að á fundinum hafi verið rætt um þann löngu úrelta veruleika að það nægi að benda á eina eða nokkrar konur sem hafa náð að brjóta glerþakið til að staðfesta árangur. „Þetta er sem betur fer að breytast frá þeim tíma þegar ein og ein kona voru nefndar sem einhverskonar sönnun þess að til staðar væri jafnrétti. Nú vitum við að varanlegur og raunverulegur árangur næst aðeins með því að stór fjöldi kvenna og jafnt hlutfall karla og kvenna fari með völd og gegni leiðtogastöðum.“

Klemens Þrastarson starfsmaður sendinefndar Evrópusambandsins.
Klemens Þrastarson starfsmaður sendinefndar Evrópusambandsins.

Þurfti að nota aðrar dyr

„Kynjajafnrétti, og jafnrétti yfir höfuð, er eitt helsta stefnumál Evrópusambandsins og við fjöllum um það á Íslandi eins og annarsstaðar,“ segir Klemens Þrastarson, starfsmaður sendinefndar Evrópusambandsins, um viðburðinn sem haldinn var í Bíó Paradís í dag.

„Margt áhugavert kom fram í umræðunum, til dæmis sagði sendiherra Noregs frá því þegar hún vann í Íran og þurfti að nota sérstakar dyr til að fara inn í opinberar byggingar, því hún mátti ekki sem kona ganga inn um sömu dyr og karlar. Hún telur að á þessum tíma hafi hún jafnvel haft betra aðgengi að ýmsum valdamönnum í Íran, en sendiherrar sem voru karlar. Ef til vill er það vegna þess að konur voru þar ekki teknar jafn alvarlega og karlar.“

Ójafn leikur

„Lilja Sigurðardóttir rithöfundur fjallaði um bók sína Svik, sem fjallar um konu sem hefur starfað við að veita þróunaraðstoð um árabil erlendis og kemur aftur heim til Íslands og er innan skamms komin í ríkisstjórn. Þá fer hún að reka sig í öll þessi frægu glerþök sem konur þurfa að brjóta eða brosa í.

Aðstæður kvenna í stjórnmálum, sem og í mun fleiri málum, er rannsóknarefni. Þetta er ójafn leikur og það eru mörg augljós dæmi um það, ekki síst í hruninu þar sem við sáum að allt öðruvísi var farið að sumum konum, t.d. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, en körlum, sem voru þó í svipaðri eða mun bagalegri stöðu.“

Klemens segir að honum hafi þótt eftirminnilegast í tali Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þegar hún talaði um að hafa verið eins mikill femínisti og hún taldi sig geta verið í stjórnmálum þess tíma og hvernig hún hafi á endanum ekki getað horfst í augu við ungar konur og sagt þeim að stjórnmálin væri þeirra og hefði á endanum ákveðið að snúa sér að öðrum vettvangi.

Greinilega þörf á þessari umræðu

„Þetta snýst kannski allt á endanum um það, hvernig við notum tungumálið til að ræða um konur í stjórnmálum og hversu frábrugðið það er umtalinu um karlana. Oft er til dæmis rætt um konur eins og verkfæri í höndum annarra stjórnmálamanna, jafnvel þótt þær séu forsætisráðherrar, og þær þannig gerðar nánast ómennskar, bara til skrauts.“

Klemens segist mjög ánægður með áhugann sem málþinginu hefur verið sýndur og vonast til að halda áfram með svona umræður á næstu misserum. „Það er greinilega þörf á því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert