Blóðugir mótmælendur með poka á höfði

Mótmæli hófust við rússneska sendiráðið við Túngötu klukkan 12 í dag, en mótmælendur voru fáklæddir og höfðu atað hvít föt sín rauðri málningu þannig þau virtust blóði drifin.

Sumir mótmælendanna voru einnig með plastpoka á höfði. 

Tilgangur mótmælanna var að vekja athygli á þeim kynferðisglæpum og ofbeldi sem rússneskir hermenn í Úkraínu hafa beitt almenna borgara í stríðinu þar í landi.

Um 20 til 30 manns tóku þátt í mótmælunum, flestir þeirra Úkraínumenn, en í hópnum voru einnig Rússar og Pólverjar. 

Lögreglan var með töluverðan viðbúnað vegna mótmælanna og var hluta af Túngötu lokað vegna þeirra. Mótmælin fóru þó friðsamlega fram og þurfti lögregla ekki að hafa nein afskipti.

Athöfn í Fossvogskirkjugarði

Skömmu áður stóð rússneska rétttrúnaðarkirkjan hér á landi fyrir minningarathöfn í Fossvogskirkjugarði, en þann 9. maí fagna Rússar sigri sínum á Þjóðverjum í seinni heimstyrjöldinni. 

Athöfnin var fámenn en nokkrir mótmælendur höfðu komið sér fyrir á bílastæðinu við kirkjugarðinn, með skilti til að mótmæla innrás Rússa í Úkraínu. 

Lögreglan var einnig með gæslu við athöfnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert