Hamarshöllin „hápólitískt mál“

Aldís Hafsteinsdóttir og Njörður Sigurðsson eru á öndverðum meiði þegar …
Aldís Hafsteinsdóttir og Njörður Sigurðsson eru á öndverðum meiði þegar kemur að meintum áhrifum umræðunnar á fylgi meirihlutans. Samsett mynd

Hamarshöllin er hápólitískt mál, að sögn Aldísar Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra Hveragerðis. Hún spyr sig hvað minnihlutinn hefði notað sem kosningamál ef Hamarshöllin hefði ekki fallið saman í vetur. „Hefði þá bara verið allt í góðu í Hveragerði?“

Njörður Sigurðsson, bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis, segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi gert umræðuna um Hamarshöllina að kosningamáli með því að gæta ekki vandaðri vinnubragða og samráðs við íbúa. 

Íbúafundur um Hamarshöllina fór fram í gær en fyrir liggur að meirihluti bæjarstjórnar er nú þegar búinn að taka ákvörðun um að endurreisa Hamarshöllina sem dúkhýsi. 

Íbúum var sumum heitt í hamsi á fudninum, að sögn Njarðar, og höfðu þeir sterkar skoðanir á málinu.

„Fólk skiptist á skoðunum og já já, það voru ákveðnar umræður, en mér fannst þetta góður og upplýsandi fundur,“ segir Aldís.

Stuðningsmenn minnihlutans hafi boðað fundinn

Aldís bendir á að stuðningsmenn minnihlutans hafi boðað til fundarins og líta megi á hann sem pólitískt útspil í aðdraganda kosninga. Þrátt fyrir það kveðst hún ánægð með að fundurinn hafi verið haldinn, enda hafi margir mætt og enn fleiri fylgst með á streymi. 

Njörður tekur ekki undir það að minnihlutinn eða stuðningsmenn hans hafi staðið að fundinum. „Það voru bara óánægðir íbúar sem stóðu fyrir undirskriftarsöfnun og boðuðu til fundarins.“

Minnihlutinn í bæjarstjórn heldur því fram að meirihlutinn hafi stytt sér leið og ákveðið að dúkhýsi yrði reist, án þess að skoða aðra valmöguleika til hlítar.

Skýrsla Verkís, þar sem finna má kostnaðarsamanburð á valmöguleikum, hafi ekki verið fullnægjandi þar sem hvorki hafi verið skoðaður kostnaður við óeinangrað hús né kostnaður við innflutt, einangrað hús. 

Umdeild áhrif á kosningabaráttu 

Aldís segir það ekki fljótfærni hjá meirihlutanum að taka ákvörðun um dúkhýsið. Mikilvægt sé að koma upp góðri aðstöðu til íþróttaiðkunar sem fyrst. 

„Við erum að taka inn nýjan dúk í staðinn fyrir þann sem nýst hefur vel. Það kostar 85 milljónir svo við erum ekki að tala um miklar fjárhagslegar skuldbindingar.“

Höllin verður vonandi komin í gagnið næsta haust, að sögn Aldísar. Hún kveðst finna meðbyr frá fólkinu í Hveragerði og telur því að málið muni frekar hafa jákvæð en neikvæð áhrif á kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins.

„Fólk kann að meta að við ætlum að endurreisa húsið eins fljótt og hægt er en ekki að fara í einhverja óvissuferð sem augljóst er að verður margfalt dýrari.“

Njörður hefur aðra sögu að segja en hann kveðst sannfærður um að málið muni koma til með að bitna á fylgi meirihlutans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert