Eldræða Sönnu um húsnæðismál í borginni

Þögn sló á salinn þegar Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavík, tók til máls í kappræðum milli oddvita í borginni og lýsti neyðarástandi á húsnæðismarkaði.

Hún segir ekki nóg fyrir Reykjavíkurborg að halda áfram að „byggja, byggja, byggja“ ef litið er fram hjá þörfum íbúa.

„Ef það gengur svona vel hjá meirihlutanum og þau hafa aldrei byggt meira af hverju eru þá um 900 á biðlista hjá félagsbústöðum? Af hverju eru þá 860 í Reykjavík í atvinnuhúsnæði sem hentar ekki til búsetu út af meðal annars of háu leiguverði? Af hverju er þá fólk að greiða 70 prósent af ráðstöfunartekjunum sínum í leigu?

Af hverju býr þá fólki inni á öðrum því það kemst ekkert annað? Af hverju eru þá fleiri að kaupa íbúð númer tvö en hafa ekki efni á að kaupa fyrstu íbúð? Af hverju eru þá fyriræki að kaupa íbúð númer tvö? Þetta er eignafólk sem er að sópa til sín íbúðum til þess að geta leigt til annarra, til þess að geta hagnast á neyð þeirra. Þannig að dæmið er ekki að ganga upp,“ segir Sanna Magdalena. 

Kappræður oddvitanna eru í kosningaþætti Dagmála sem birtist í dag.

mbl.is