Fasteignasalar sitja beggja vegna borðs

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Eggert

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakana, segir að samtökin hafi sent ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra tillögur að úrbótum til að slá á hækkanir húsnæðisverðs. Þar á meðal að kaupendur og seljendur hafi hvort sinn fasteignasalann.

„Við þurfum að hafa tvo fasteignasala. Annar að sinna kaupanda og hinn að sinna skyldum og réttindum seljanda. Þessi réttindi stangast stundum á og það getur ekki verið einn aðili beggja vegna borðs,“ segir Breki í samtali við mbl.is.

Skylda skoðun íbúða fyrir kaup

Önnur tillaga Neytendasamtakana til stjórnvalda snýr að því að íbúðir séu ekki seldar óskoðaðar. 

„Það þarf að koma til ástandsskoðun á íbúðum áður en þær eru seldar. Það er gífurlegur kostnaður neytenda sem lenda í því ef það er galli sem kemur ekki í ljós í söluferlinu, sér í lagi þegar söluferlið er svona hratt eins og það er núna. Fólk er jafnvel að kaupa íbúðir óséðar bara til að fá þak yfir höfuðið,“ segir Breki.

Hann segir að í Noregi þurfi að bíða í sólahring frá því að íbúðir er skoðaðar og þangað til megi gera tilboð í þær.

Fasteignatilboð eigi að vera í opnu ferli

„Fólk er að gera tilboð og svo hringir fasteignasalinn og segir að það sé komið hærra tilboð, svo þú hækkar þig, svo hringir hann í næsta kaupanda og segir að það sé komið hærra tilboð. Það er ákveðinn spírall sem er ósanngjarn þar sem einn aðili heldur öllum þráðum í hendi sér og getur haft áhrif á verð til hækkunar.“

Breki segir að flestir fasteignasalar hafi hag á því að söluverð sé hátt, því þeir fá greitt í hlutfalli við verð.

Fimmtán sinnum hærri stýrivextir en í Evrópu

Spurður út í hækkun stýrivaxta og að sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins teldi að hækka þyrfti vextina enn fremur til að sporna við verðbólgunni sagði Breki:

„Öll lönd í kringum okkur eru að hækka stýrivexti en samt sem áður erum við með fimmtán sinnum hærri stýrivexti hér en í Evrópu. Það er alvarlegt mál ef vextir hækka um of, við öll sem skuldum munum bera kostnað af því með einum eða öðrum hætti. Þannig þetta er ekki léttúðarmál.“

„Stöðugleiki er mjög mikilvægur en kostnaðurinn við stöðugleikann má ekki vera of hár. Það að vera með lítið hagkerfi eins og okkar er dýrt og við þurfum öll að leggjast á árarnar til þess að stöðugleikanum sé ekki raskað. Þá er það neytendur, stjórnvöld og fyrirtæki,“ segir Breki Karlsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert