Allt að sautján stiga hiti eftir helgi

Spáð er fimmtán til sautján stiga hita á höfuðborgarsvæðinu eftir …
Spáð er fimmtán til sautján stiga hita á höfuðborgarsvæðinu eftir helgi, en ekki mikilli sól. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veðurstofan býst við því að það hlýni um helgina en hiti gæti farið upp í sautján stig á höfuðborgarsvæðinu eftir helgi. Annars staðar á landinu verða tölur ekki eins háar.

Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, ræddi við blaðamann mbl.is en hvít jörð var í Reykjavík í morgun.

Ekki hægt að treysta á maí

„Maí skilar okkur mjög sjaldan almennilegu sumri. Þetta er nánast árlegt að það komi kuldakafli í maí, alls ekki óalgengt að það snjói hér fyrir sunnan þó það gerist oftar fyrir norðan,“ segir Óli.

„Hins vegar má alveg segja það að það hlýnar um helgina, sérstaklega eru mánudagur, þriðjudagur og miðvikudagur – hérna á Suðvestur- og Vesturlandi – býsna fínir að sjá. Ekki verður mikil sól en ekki ólíklegt að hiti fari yfir fimmtán til sautján stig þegar best lætur en svo er útlit fyrir að kólni aftur þegar líður á næstu viku en samt ekki svona kalt.“

Óli segir að framundan séu mjög fínir dagar en aftur á móti skili hlýindin sér ekki eins vel til Norður- og Austurlands, né til Vestfjarða. Þar gætu hitatölur náð upp í þrjár til fjórar gráður.

mbl.is