Áslaug styður fjölgun Fab Lab stöðva

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-,vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-,vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til stendur að opna tvær nýjar Fab Lab stöðvar, annars vegar á Suðurnesjum og hins vegar á Húsavík. Fab Lab er smiðja með tækjum og tólum þar sem frumkvöðlum er gert kleift að skapa nánast hvað sem er með aðstoð stafrænnar tækni. Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í samtali við mbl.is.

„Vilji minn stendur til að halda áfram að styðja við Fab Lab smiðjur víðsvegar um landið eins og gert hefur verið síðustu ár. Þær gegna mikilvægu hlutverki, byggja upp þekkingu og hæfni á sviði tækni, stuðla að þróun skapandi náms og kennslu. En ekki síst til að glæða áhuga nemenda og fólks á námi og störfum í iðn-, tækni- og verkgreinum,“ segir Áslaug Arna.

Í dag eru níu starfandi frumkvöðlasmiðjur víðsvegar um landið, flestar eru þær starfræktar í skólum og eru mikilvægur liður í að efla nýsköpunarhugsun á öllum skólastigum. Þessar 9 smiðjur auk Textíl-Labs, sem rekið er Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi, mynda öflugt samstarfsnet innanlands og sterk tengsl við Fab Lab smiðjur erlendis. Til stendur að fjölga Fab Lab smiðjunum og vonast er til þess að allt verði tilbúið til að opna smiðjurnar fyrir lok árs og segir Áslaug Arna að mikill áhugi sé fyrir smiðjum á fleiri stöðum á landinu.

Ráðuneytin efla frumkvöðla

Tæki og búnaður í nýja Fab Lab smiðju kostar um 18 milljónir króna. Árlegur rekstrarkostnaður í Fab Lab með einn starfsmann er um 14 milljónir og þar kemur háskóla-, iðaðar- og nýsköpunarráðuneytið með myndarlegt framlag. Mennta- og barnamálaráðuneytið kemur einnig með framlag til Fab Lab í gegnum aðstöðu eða notkun framhaldsskólana.

Í þessum smiðjum sem eru starfandi um allt land getur fólk á öllum aldri eflt sköpunargáfuna og hrint hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni.

„Ég hef metnað til þess að fjölga Fab Lab smiðjum um allt land, ráðuneytið er nú með samning við níu starfsstöðvar í Reykjavík, Akranesi, Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Austurlandi, Höfn, Vestmannaeyjum og Selfossi. Ég hef áhuga á að í samstarfi við áhugasamt og öflugt fólk á Suðurnesjum, að þar verði nýjasta smiðjan opnuð,“ segir Áslaug ennfremur.

Hugmynd MIT

Fab Lab kemur af ensku orðunum Fabrication Laboratory og er eins konar framleiðslu tilraunastofa. Hugmyndin kemur frá hinum virta MIT háskóla í Bandaríkjunum sem átti frumkvæði að stofnun Fab Lab og er leiðandi í heiminum þegar kemur að frumkvöðlastarfi. MIT hefur opnað slíkar smiðjur víða í Bandaríkjunum, Gana, Suður-Afríku, Kosta Ríka, Indlandi og á Spáni. Auk þess sem skólinn kom að stofnun Fab-Lab Vestmannaeyja en þar opnaði Nýsköpunarmiðstöð Íslands Fab Lab árið 2008. Síðan þá hafa bæst við átta frumkvöðlastofur og eru þær nú níu í heildina en rúmlega 2.000 Fab Lab smiðjur eru nú starfræktar um allan heim.

Áslaug segir að einnig standi til að gera samning við nýtt Fab-Lab á Húsavík sem er tilbúið. Stefnir því í mikla grósku og áður en langt um líður verða Fab-Löbin orðin 11 talsins.

mbl.is