„Erum á hnjánum gagnvart ríkisvaldinu“

Viilborg Gunnarsdóttir.
Viilborg Gunnarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki er gert ráð fyrir rekstri Seiglunnar, nýrri þjónustumiðstöð Alzheimersamtakanna, í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem gildir til 2025. 

Samtökin eru frjáls félagasamtök en treysta á að ríkisvaldið auðveldi samtökunum reksturinn. Nýlega batnaði aðstaða félagsins til mikilla muna þegar gerðar voru endurbætur á húsnæði St. Jósefsspítala í Hafnarfirði en Oddfellowreglan á Íslandi kostaði breytingarnar á húsakynnunum fyrir samtökin. 

Vilborg Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna, segir að samtökin hafi fengið fjármagn á viðbótarfjárlögum sem dugi næsta árið til reksturs Seiglunnar en eftir það sé óvissa um framtíð rekstursins. 

„Í aðgerðaáætlun heilbrigðisyfirvalda í málefnum fólks með heilabilun stendur meðal annars að koma skuli upp þjónustumiðstöð fyrir nýgreinda. Með dyggri hjálp frá Oddfellowreglunni á Íslandi höfum við hjá Alzheimersamtökunum komið húsnæði á koppinn. Starfssemin er komin í gang, við erum búin að ráða fólk og hingað er farið að koma fólk í þjónustu. Á sama tíma erum við ekki með tryggar rekstrartekjur,“ segir Vilborg og framtíðin er óljós að óbreyttu.  

Hagkvæmni gætt í rekstrinum

„Við fengum 50 milljón króna styrk á viðbótarfjárlögum fyrir jól. Var það fyrir hálfgerða tilviljun en dugir okkur fyrsta árið. Við erum hins vegar ekki inni í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu ára. Við höfum gert athugasemdir við það og er í athugasemdaferli. Það væri fáránlegt ef rekstrargrundvellinum yrði kippt undan okkur þannig að við gætum ekki verið örugg um rekstrartekjur fyrir þessa þjónustu næstu árin. 

Lífsgæðasetriðið í Hafnarfirði þar sem St. Jósefsspítali var áður.
Lífsgæðasetriðið í Hafnarfirði þar sem St. Jósefsspítali var áður. mbl.is/Árni Sæberg

Við gerum þetta á mjög hagkvæman hátt. Við erum til að mynda með fjórtán sjálfboðaliða sem koma hingað reglulega og taka að sér ýmsa þætti klukkutíma í senn eins og styrktarþjálfun. Einnig er fólki fylgt í ræktina og farið með fólk á kaffihús og söfn. Án þessara sjálfboða gætum við ekki veitt þessa þjónustu. Nú erum við á hnjánum gagnvart ríkisvaldinu að reyna að tryggja okkur fé til að tryggja reksturinn og halda starfinu áfram. “

„Þetta hryggir mann“

Vilborg veltir því fyrir sér hvort ætlast sé til þess að frjáls félagasamtök haldi uppi heilbrigðisþjónustu. 

„Þetta er svolítið sorglegt. Þetta hryggir mann. Sérstaklega þegar við höfum fengið jafn flotta aðstoð eins og við fengum frá Oddfellowreglunni. Krafturinn virðist vera í frjálsum samtökum. Við erum frjáls félagasamtök eins og Oddfellowreglan. Eigum við að halda uppi heilbrigðisþjónustu?“ spyr Vilborg en umfangið hvað varðar heilabilun á Íslandi mun aukast á næstu árum með breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar

„Það eru að koma upp mjög stórir árgangar eða eftirstríðskynslóðin eins og hún er kölluð. Í dag eru um það bil 5 þúsund með heilabilun á Íslandi og talið er að þeir verði um helmingi fleiri árið 2050. Þessi vandi er ekki að minnka.  Ég sé þess ekki merki að verið sé að bregðast við því. Enn sem komið er þá er Alzheimer ólæknandi. Auk þess býr sjúkdómurinn gjarnan til tvo sjúklinga. Að minnsta kosti. Álagið á nánasta aðstandanda og fjölskyldur verður mjög mikið. Þegar líður á sjúkdóminn verður umönnunin svo þung,“ segir Vilborg Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert