Fjárframlög hafi ekki verið skert

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kveðst ósammála því að skerðing sé á fjármagni til heilbrigðismála í fjármálaáætlun til ársins 2026. Segir hann að aukning sé á heildartölum.

Í ályktun frá fulltrúaþingi Sjúkraliðafélags Íslands kemur fram að ný fimm ára fjármálaáætlun stjórnvalda sé alls ekki í takt við fögur fyrirheit um bætta stöðu í heilbrigðismálum og sé í raun skerðing á fjármagni til heilbrigðismála.

„Ár­leg fjár­aukn­ing til heil­brigðismála til árs­ins 2026 verður ein­ung­is á bil­inu 1,3% - 2,8%. Á síðasta ári fjár­mála­áætl­un­ar­inn­ar lækka út­gjöld til heil­brigðismála um 2% stig á milli ára. Því til viðbót­ar munu fram­lög til hjúkr­un­ar- og end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu lækka bein­lín­is næstu fimm árin þrátt fyr­ir mikla fjölg­un eldri borg­ara,“ segir þar einnig.

Stofnframkvæmdir fallar niður í enda tímabils

Í samtali við mbl.is kveðst Willum ekki geta tekið undir að um skerðingu sé að ræða heldur aukningu upp á 1,3 til 2,8%, líkt og tekið er fram í ályktuninni. Þá vekur hann einnig athygli á að fjármögnun vegna uppbyggingar Landspítala geti gefið ranga mynd.

„Inn í þessum tölum eru stofnframkvæmdir á spítala sem að falla niður í enda tímabils og það hefur áhrif á heildartölurnar í þessu.“

Tekur áskoruninni mjög vel

Í ályktun Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH), sem var samþykkt einróma á aðalfundi félagsins í gærkvöldi, er skorað á heilbrigðisráðherra að beita sér fyr­ir leiðrétt­ingu á kyn­bundn­um launamun á hjúkr­un­ar­fræðing­um og öðrum stétt­um með sam­bæri­lega mennt­un og ábyrgð. 

Vísaði fé­lagið til niður­stöðu gerðardóms 2020 þar sem fram kom að vís­bend­ing­ar væru til staðar um að hjúkr­un­ar­fræðing­ar væru van­met­in kvenna­stétt með til­liti til launa og ábyrgðar í starfi. 

Willum segir stjórnvöld hafa barist fyrir því að bæta úr kynbundnum launamun og telur hann óumdeilt að hjúkrunarfræðingar séu mjög mikilvæg stétt í heilbrigðisþjónustu. 

„Ég tek svona áskorunum mjög vel vegna þess að þetta er verkefni okkar allra og við erum að vinna í því.“

Taka verkefninu alvarlega

Í ályktun FÍH var einnig skorað á ráðherra að beita sér fyr­ir laga­setn­ingu um mönn­un­ar­viðmið í heil­brigðis­kerf­inu, sam­bæri­leg þeim sem eru í gildi í helstu sam­an­b­urðarlönd­um Íslands. 

Að sögn Willums er þetta verkefni þegar á borði landráðs um mönnun og menntun, og er því tekið mjög alvarlega í ráðuneytinu.

mbl.is