Eldhætta við að draga suma nýja bíla

Rafmagnsbílar eru ekkert hreyfðir nema með sérhæfðum tækjum.
Rafmagnsbílar eru ekkert hreyfðir nema með sérhæfðum tækjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gísli Jónsson, framkvæmdastjóri Króks, sem sérhæfir sig í flutningi og björgun ökutækja, segir bíla vera þannig í dag að oft þurfi lítið til þess að hjól þeirra læsist og ekki sé hægt að fjarlægja þá öðru vísi en með dráttarbíl. Kviknað getur í sumum bílum séu þeir þvingaðir.

Mikil umferðarteppa var á Vesturlandsvegi á miðvikudaginn eftir smávægilegt umferðaróhapp sem gerði rafmagnsbíl óökuhæfan. Á aðra klukkustund tók fyrir dráttarbíl að komast á staðinn.

„Það er ekkert launungarmál að við vorum lengi á staðinn en það var náttúrulega því að umferðin var öll stífluð. Þessi umferðaróhöpp eru alltaf í fyrsta forgangi hjá okkur. Það er alltaf forgangsatriði að rýma götur,“ segir Gísli og bætir við að erfiðara sé að draga nútímabíla en gamla.

„Það er orðið þannig með bíla í dag að þó að tjónið sé minniháttar er þeir bara læstir á öllum hjólum og það er ekkert hægt að gera nema að taka hann með dráttarbíl.“

„Þetta er orðið almennt með bíla, ekkert endilega bara rafmagnsbílar. Sumir festast í parkinu ef það kemur högg á þá, það er höggskynjari sem virkjar það. Þar að leiðandi læsast þeir kannski í rafmagnshandbremsu líka. Þetta er ekkert eins og áður fyrr þar sem bíl var bara ýtt út í kant, segir Gísli.“

Draga rafmagnsbíla með sérstökum tækjum

Gísli segir að það megi ekki draga rafmagnsbíla hvernig sem er.

„Það er meira að segja varað við því í sumum bílum ef þú reynir eitthvað að þvinga bílinn getur kviknað í honum. Þannig það er eitthvað sem menn ættu ekki að reyna.“

„Þar að leiðandi eru svona bílar ekkert hreyfðir nema með sérhæfðum tækjum. Við erum með búnað sem leysir flutning á öllum bílum í flest öllum tilfellum,“ segir Gísli.

Gísli Jónsson og Jóhann Baldursson.
Gísli Jónsson og Jóhann Baldursson. mbl.is/Ómar Óskarsson
Krókur sérhæfir sig í flutningi og björgun ökutækja.
Krókur sérhæfir sig í flutningi og björgun ökutækja. Ljósmynd/Krókur
mbl.is