Stærsti skjálfti sem mælst hefur á þessu svæði

Fólk má búast við eftirskjálftum í dag og jafnvel næstu …
Fólk má búast við eftirskjálftum í dag og jafnvel næstu daga. Kort/Veðurstofa Íslands

Jarðskjálftinn var stærsti skjálftinn sem mælst hefur á viðkomandi svæði, að minnsta kosti frá árinu 1991, en Veðurstofan hefur ekki gögn undir höndunum sem ná lengra aftur.

Jarðskjálftinn skók suðvesturhluta landsins á fimmta tímanum og var að stærðinni 4,7. Upptök hans voru austan við Lambafell í þrengslunum. 

Engar skemmdir urðu vegna skjálftans, en hann fannst frá Fljótshlíð upp í Borgarnes.

Niðurdæling ekki orsökin

Elísabet Pálmadóttir, vakthafandi veðurfræðingur, segir að um jarðskjálftavirkt svæði sé að ræða.

Að hennar mati er ómögulegt að um afleiðingar niðurdælingar Orku náttúrunnar á Hengilssvæðinu, sé að ræða. Upptök skjálftans voru á 8 km dýpi. 

Spurning hvort meira þurfi að losna

Skjálftinn sé til marks um spennulosun, en spenna hefur verið að byggjast upp á svæðinu vegna langvarandi skjálftavirkni á Reykjanesskaganum, við Svartsengi og úti við Reykjanes, en lítil sem engin skjálftavirkni var í gangi á þessum slóðum áður en umræddur skjálfti reið yfir.  

„Það er svo bara spurning hvort það sé eitthvað meira sem þarf að losna.“

Líklega flekahreyfingar frekar en eldstöðin

Eldfjalla- og náttúruváhópur Suðurlands bendir á að skjálftinn sé innan áhrifasvæðis Hengilseldstöðvarinnar. Þó verði að teljast líklegra að skjálftinn tengist flekahreyfingum en að eldstöðin sé að bæra á sér.

Fólk má búast við að finna fyrir eftirskjálftavirkni í dag og jafnvel næstu daga. Elísabet getur þó ekki spáð fyrir um hve stórir þeir skjálftar verða. 

mbl.is