Þessi skjálftavirkni bara byrjunin

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emerítus.
Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emerítus. mbl.is/Sigurður Bogi

Jarðskjálftinn sem skók suðvesturhorn landsins eru fyrstu merki um að óróleikinn sé að teygja sig austar, að sögn Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings. Þá koma til sögu jarðskjálftasvæði sem geta búið til enn stærri skjálfta. 

„Frá Þrengslunum og vestur að Kleifarvatni hafa orðið skjálftar sem fara vel yfir sex stig, síðast árið 1986 varð sex stiga skjálfti í Brennisteinsfjöllum.“

Páll útskýrir að sex stiga skjálftar, austan Þrengslanna, séu þeir skjálftar sem verða sterkastir í Reykjavík. 

„Við erum ekki að tala um hamfarir en þeir geta valdið umfangsmiklum smærri tjónum.“ 

Fólk megi búast við aukinni skjálftavirkni

Skjálftinn sem íbúar á suðvesturhluta landsins fundu hressilega fyrir á fimmta tímanum í dag er bara byrjunin að mati Páls. 

„Þessi ókyrrð er búin að standa í hátt á þriðja ár og því má búast við að fólk finni talsvert af skjálftum næstu árin.“

Sviðsmyndir að raungerast

Þá bendir hann á að óróleikatímum sem þessum fylgi oft stór skjálfti í Brennisteinsfjöllum, það hafi gerst árið 1968 og árið 1929. 

„Það hefur legið fyrir frá því að þetta byrjaði í árslok 2019. Það voru dregnar upp sviðsmyndir sem hafa verið að raungerast hver af annarri, ein þeirra var til að mynda eldgosið á Reykjanesskaga.“

mbl.is